Fundað fram á nótt í Seðlabankanum

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra fengu far …
Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra fengu far með Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, að fundi loknum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fundi helstu ráðamanna þjóðarinnar í Seðlabanka Íslands lauk skömmu eftir miðnætti í gærkvöldi og yfirgáfu menn fundarstaðinn um stundarfjórðungi gengið í eitt.

Bæði þegar menn mættu til fundar, á mismunandi tímum fram eftir kvöldi, sem og þegar flestir yfirgáfu fundinn eftir miðnætti voru menn þögulir sem gröfin. Enginn vildi tjá sig um það hvort einhverra aðgerða eða inngrips ríkisstjórnar væri að vænta fyrir opnun hlutabréfamarkaða í dag.


Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur fundað með bankamönnum landsins alla helgina. Á laugardag fundaði hann með bankastjórum Seðlabanka Íslands stóran hluta úr degi. Í gær gengu seðlabankastjórarnir aftur á fund forsætisráðherra, þá í fjármálaráðuneytinu og hafði Árni Mathiesen fjármálaráðherra einnig bæst í hópinn.

Aðstoðarmenn ráðherra og ráðgjafar funduðu í gær í forsætisráðuneytinu og fram kom í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi að bankastjórar Kaupþings banka hefðu komið á þeirra fund.


Forsætisráðherra og efnahagsráðgjafi hans, Tryggvi Þór Herbertsson, fóru úr forsætisráðuneytinu upp úr klukkan átta í gærkvöldi í hús Seðlabankans þar sem mikil fundarhöld voru fram yfir miðnætti. Í forsætisráðuneytinu höfðu þeir áður hitt Kjartan Gunnarsson, stjórnarmann í Landsbanka Íslands og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Rúmlega hálf ellefu mættu Lárus Welding bankastjóri Glitnis og Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður bankans í Seðlabankann ásamt Gesti Jónssyni lögmanni. Þeir vildu ekkert segja um fundarefnið þegar þeir yfirgáfu fundinn rúmum þremur korterum síðar.

Þá voru mætt á fundinn forystumenn stjórnarandstöðunnar, þau Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins. Þegar þau yfirgáfu Seðlabankann þremur korterum síðar, eða rétt fyrir miðnætti, sögðust þau ekki geta tjáð sig neitt um málið þar sem þau væru bundin trúnaði.

Meira í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK