Fréttaskýring: Klúður í kappi við tímann

Björgunaraðgerðunum mótmælt í New York. „Bjargið fólki, ekki bönkum.“
Björgunaraðgerðunum mótmælt í New York. „Bjargið fólki, ekki bönkum.“ Reuters

„Við verðum bara að sitja, bíða og vona.“

Á þennan hátt lýsir Robert Preston, viðskiptaritstjóri BBC, viðbrögðunum sem hann heyrir frá bankamönnum, sjóðstjórum, forsvarsmönnum eftirlitstofnana og stjórnmálamönnum eftir að fulltrúadeild bandaríska þingsins felldi björgunaraðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar í gær. Ekki fyrr í manna minnum hefur frumvarp sem leiðtogar beggja flokka í þingdeildinni og forseti Bandaríkjanna - ásamt forsetaframbjóðendum beggja flokkanna - hafa stutt með öllum sínum þunga, ekki náð fram að ganga.

Tim Reid, fréttaritari The Times  í Bandaríkjunum, segir að rekja megi klúðrið, höfnun frumvarpsins, til þess að leiðtogar beggja flokka í þingdeildinni og Hvíta húsið hafi algerlega misreiknað stöðuna með svo voveiflegum hætti því að fram á síðustu stund hafi þessir aðilar verið sannfærðir um að frumvarpið yrði samþykkt.

Í gangi hafi verið fullkomið vanmat á því að margir þingmenn og þingkonur úr báðum flokkum voru ekki tilbúin að veita brautargengi frumvarpi sem þau vissu að væri afar óvinsælt hjá grasrótinni úti í kjördæmum þeirra og ekki nema fimm vikur til kosninga þar sem öll sæti fulltrúadeildar þingsins eru undir.

Uppreisn í báðum flokkum

Leiðtogarnir höfðu ekki reiknað með uppreisn íhaldssömustu repúblikana í þingdeildinni, sem gátu ekki sætt sig við svo umfangsmikið inngrip ríkisstjórnarinnar, né heldur andstöðu frjálslyndra demókrata sem vildu ekkert gera til létta auðmönnunum á Wall Street sársaukann. Af 435 þingmönnum fulltrúadeildarinnar greiddu 133 repúblikanar atkvæði gegn frumvarpinu og 95 demókratar. Aðeins 65 þingmenn repúblikana eða þriðjungur þingmanna studdi málið og 140 demókratar eða um 60% þingmanna þeirra í deildinni. Frumvarpið var því fellt með 228 atkvæðum gegn 205.

Dramatískar lýsingar eru á því þegar það byrjaði að renna upp fyrir leiðtogum flokkanna beggja að verið gæti að kosningin væri að taka einhverja aðra stefnu en ætlað hafði verið. John Boehner, leiðtogi repúblikana, rauk upp í pontu aðeins fáeinum mínútum áður en gengið var til kosninga og kvað upp úr með að frumvarpið virtist í hættu, hvatti þingmenn til að ýta til hliðar þröngum pólitískum sjónarmiðum, hafa í huga að þeir gætu verið að setja pólitíska framtíð sína í uppnám - og segja því já.

Örvænting í atkvæðagreiðslunni

Atkvæðagreiðslan var vart hafin áður en Dow Jones-vísitalan hafði fallið um 500 stig og Nancy Pelosi, þingforseti og demókrati, lýsti því yfir í örvæntingu að hún héldi kosningunni opinni - og atkvæðagreiðslan sem vanalega tekur 15 mínútur teygðist um 25 mínútur - allt í þeirri von að það tækist að vinna yfir þá 13 nei-þingmenn sem upp á vantaði til tryggja málinu meirihlutafylgi. Árangurinn var hins vegar að eins tveir þingmenn breyttu atkvæði sínu og atkvæðagreiðslunni var lokið.

Eftirleiknum hefur verið lýst á þann veg að það hafi virst sem tíminn stæði í stað. Fólk bograndi heila eilífð yfir borði þingdeildarformannsins og þess beðið að hamarhöggið glymdi til marks um að kosningu væri lokið. Fréttastofurnar hikuðu við að senda út niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sem telst afar sjaldgæft á dögum fjölmiðlunar í rauntíma. Dauðaþögn ríkti á markaðsgólfunum í New York. Undir  lok viðskiptadagsins hafði DJ-vísitalan svo fallið um 777 stig, mesta fall í prósentum á síðustu sjö árum og mesta fall sögunnar í stigum talið.

Í kjölfarið hófust svo hefðbundnar sakbendingar. Þetta var allt Nancy Pelosi að kenna, sögðu repúblikanar, hún hafði notað ræðutíma sinn fyrir atkvæðagreiðsluna til að lýsa allsherjar frati í efnahagsstjórn repúblikana síðustu árin og hleypt illu blóði í andstæðinganna. Demókratinn Barney Frank, formaður fjármálanefndar þingdeildarinnar, brást óvæða við þessum ásökunum. „Einhver særir tilfinningar þínar og þú hefnir þín á þjóðinni,“, sagði hann. „Það er ekki gæfulegt.“

Öllum er hins vegar ljóst að frumvarpið mun fara aftur fyrir þingið í einhverri mynd, líklegast þegar á fimmtudag. „Verum í sambandi“, sagði Nancy Pelosi, augljóslega brugðið eftir útslitin. „Það sem gerðist hér í dag, getur ekki gengið. Við verðum að halda áfram og ég vænti þess að markaðurinn hlusti á þessi skilaboð.“

Þríþrepa vitleysisgangur

Anatole Kaletsky, dálkahöfundur hjá The Times, segir ekki verði við annað unað en björgunarpakkinn fari í gegnum þingið því að hinn kosturinn sé að allir helstu bankar Bandaríkjanna komist í þrot, bandarísk stjórnvöld geti ekki tryggt innstæður almennra sparifjáreigenda og gjaldþrot blasi við mörgum stærstu fyrirtækjum landsins, svo sem General Motors og Ford. Áhrifin á önnur efnahagskerfi heimsins verði ógnvænleg.

Athyglisvert er hins vegar á hvern Kaletsky skellir fyrst og fremst skuldinni hvernig komið er. Sökudólgurinn er „Hank Paulson, fyrrum bankastjóri á Wall Street og óhæfur fjármálaráðherra.“ Ef Paulson væri ekki þarna hefði sennilega ekki þurft neina björgunaraðgerð, segir Kaletsky.  Það sem gert hafi björgunaraðgerðina nauðsynlega hafi verið þríþrepa vitleysisgangur af ráðherrans hálfu.

Fyrsta þrepið var þegar Paulson, aðallega út frá pólitískum sjónarhóli, ákvað að þurrka út almenna hluthafa í Fannie Mae og Freddie Mac húsnæðislánabönkunum, fyrirtæki sem hann og margir skoðanabræður hans meðal repúblikana hafa litið á sem dul-sósíalískt meinvarp í bandarískum stjórnmálum. Gífurlegt og ónauðsynlegt tap hluthafanna hafi hrundið af stað  fyrstu skriðu fjármálahrunsins sem hófst 8. september.

Paulson hafi síðan stigmagnað kreppuna með því að setja vitandi vits  Lehman í gjaldþrotameðferð og hrifsað til ríkisins eigur AIG-tryggingafélagsins.

Þessar óþörfu ráðstafanir smituðu yfir í fjármálakerfið í heild, segir Kaletsky. En jafnvel enn alvarlegra hafi verið næsta skref hins pólitíska vitleysisgangs Paulsons, sem hafi hafist með skyndilegri tilkynningu hans um 700 milljarða dala björgunaraðgerðir án þess að ráðfæra sig við einn eða neinn. Af fullkomnum hroka hafi hann gefið sér að þingið myndi fylla út slíkan tékka og síðan bætt um betur með því að vera alls ófær um að útlista hvernig hann ætlaði að nota peningana til að hjálpa bönkunum.

Undir þessum kringumstæðum hafi varla þurft að koma á óvart, að þegar hann mætti andstöðu í þinginu hafi hann misstígið sig í þriðja sinn.

Yfirbót fyrir spellvirkin í þinginu

Einasta von Paulson hafi verið að veita leiðtogum demókrata í þinginu fullan stuðning í því að móta áætlunina sjálfir, eins og þeir höfðu fullan hug á. Þess í stað hafi hann - í blálok samninganna - gefið John McCain, forsetaframbjóðanda, færi á að að koma að samningunum í líki frelsandi engils af himnum ofan til að hirða heiðurinn að því að hafa bjargað efnahag landsins. Hefði Paulson hins vegar haldið McCain frá málinu væri frumvarpið væntanlega þegar í höfn en hann hafi hins vegar beygt sig fyrir flokkspólitískri kröfu repúblikana um aðkomu að björgunarpakkanum og þannig ýtt undir „skemmdarverkin“ sem unnin voru í þinginu í gær.

Eftir þessa ádrepu segir Kaletsky einungis eina lausn í boði. Paulson og Bush verða að grátbæna demókrata aftur um stuðning til að koma málinu í gegnum þingið. Nú séu demókratar aftur á móti í stöðu til að krefjast þess að Paulson og Bush fordæmi félaga sína meðal repúblikana fyrir þau spellvirki sem þeir hafi unnið á bandarísku efnahagslífi og spili demókratar rétt úr því sem þeir hafa á hendi geti vel verið að Paulson eigi ekki annarra kosta völ.

Væntanlega er þetta heldur langsótt  útspil og vafalaust mótað af einhverri óskhyggju Kaletsky, en á hinn bóginn - oft vita þó dálkahöfundarnir lengra nefi sínu.

Sökudólgurinn, fjármálaráðherra Bandaríkjanna Henry Paulson.
Sökudólgurinn, fjármálaráðherra Bandaríkjanna Henry Paulson. Retuers
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK