Líst illa á að lífeyrissjóðir flytji fé heim

Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason. mbl.is/Kristinn

Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, sagði í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag, að sér litist illa á að til stæði að flytja erlendar eignir lífeyrissjóðanna til Íslands. Lífeyrissjóðirnir hefðu það eina hlutverk að standa vörð um hag sjóðþega en ættu ekki að trúa fagurgala stjórnmálamanna um að nú þurfi allir að bera ábyrgð.

Ekki megi losa fé þannig að það sé á kostnað framtíðarinnar og því eigi að fara mjög varlega með lífeyrissjóðina. Þurfi að losa eignir þurfi að biðja eigendur bankanna að flytja erlendar eignir þeirra heim. 

Þorvaldur sagði að það væri einfaldlega ekki rétt, að allt væri hér með kyrrum kjörum ef lausafjárkreppan hefði ekki skollið á í útlöndum. Sú kreppa hefði raunar verið neistinn sem kveikti bálið en hér hefði vandinn komið upp á yfirborðið fyrr en síðar því hann væri  að miklu leyti heimabakaður.

Þorvaldur sagði að á Norðurlöndunum hefði því verið gætt vel, að bankarnir yxu ekki löndunum yfir höfuð. Þessara sjónarmiða hefði ekki verið gætt hér og því hefðu bankarnir vaxið afar hratt. Hér hefði verið farið of geyst og  viðvörunum ekki sinnt.

Alvarleg og ítrekuð mistök Seðlabanka 

Þorvaldur sagði, að Seðlabanka Íslands hefði í aðdraganda gjaldeyriskreppunnar orðið á mjög alvarleg og ítrekuð mistök og einnig ríkisstjórninni og ekki væri hægt að bregðast við þeim með öðrum hætti en að skipta um áhöfn í Seðlabankanum strax eftir helgi. „Ef ríkisstjórnin ræður ekki við það verk verður hún sjálf að víkja," sagði Þorvaldur.

Hann sagði best væri í stöðunni nú, að leita samstarfs við Svía og Norðmenn, hugsanlega einnig Dani og Finna, um aðstoð, bæði tækniaðstoð og fjárhagsaðstoð. Það vekti furðu margra, að ekki virtist hafa verið leitað eftir slíku fyrr.

Sagði Þorvaldur að Svíar og Norðmenn væru nánast heimsmeistarar í bankahreingerningu því svo vel hefði þeim tekist til eftir fjármálakreppu þar á árunum 1988 til 1993. En fyrst þyrfti að leysa lausafjárkreppuna og þar sem Ísland væri lítið ætti Svíum og Norðmönnum ekki að verða skotaskuld úr því. Hvort þeir kæri sig um það sé önnur saga.

Hin leiðin úr úr vandanum væri að setjast niður með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hefði yfir öllum þeim tækjum og aðferðum að ráða sem þyrfti. Það væri alls ekki vondur kostur fyrir Ísland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK