Óraunhæft að engin skilyrði verði sett fyrir aðkomu IMF

YURI GRIPAS

Greining Glitnis telur að það sé ekki ólíklegt að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn myndi víkja einhverjum skilyrðum sem sjóðurinn hefur sett til grundvallar til hliðar að einhverju leyti komi til aðstoðar IMF hér á landi. Það væri þó úr takti við grundvallarstefnu sjóðsins ef engin skilyrði yrðu sett og óraunhæft að búast við að Ísland fengi slíka sérmeðferð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu deildarinnar sem nefnist Fjármálakreppur eiga sér upphaf og endi.

„Einn af þeim valkostum sem í boði eru til lausnar á aðsteðjandi vanda er að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Staðfest hefur verið að sendinefnd sjóðsins var stödd hér á landi í vikunni sem leið og að IMF hafi boðið fram aðstoð sína. Þá hefur Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, fundað með sjóðnum í þessari viku.

Enn hefur þó ekki verið tilkynnt um að tekin hafi verið ákvörðun um að þiggja aðstoð sjóðsins en líklegt er að ákvörðun muni liggja fyrir á næstu dögum.

Þrátt fyrir að þær raddir gerist nú sífellt háværari sem telja að ekkert annað sé fært en að þiggja aðstoð sjóðsins, væri það vissulega mjög stór og afdrifarík ákvörðun sem þyrfti að taka að vel ígrunduðu máli.

Fyrir það fyrsta þá væri lánveiting IMF háð ákveðnum skilyrðum. Það fyrirkomulag er til grundvallar starfsemi IMF og algjörlega ófrávíkjanleg regla.

Í öðru lagi þá væri um að ræða viss tímamót þar sem IMF hefur ekki komið vestrænu opnu markaðshagkerfi til hjálpar um afar langt skeið.

Í þriðja lagi þá myndi aðstoðin marka tímamót þar sem IMF hefur ekki lánað vegna vandræða af þessu tagi síðan Argentína fór í þjóðargjaldþrot árið 2001. Frá þeim tíma hefur aðstoð IMF verið bundin við tilvik sem tengjast efnahagsvanda sem tilkominn er vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara.

IMF kom mikið við sögu á níunda áratugnum þegar sjóðurinn kom löndum á borð við Tyrkland, Mexíkó, Rússland, Tæland, Víetnam, Indónesíu og Argentínu til bjargar. Það myndi óhjákvæmilega hafa mikil áhrif á stöðu Íslands í alþjóðahagkerfinu ef að Ísland kæmist á lista þeirra þjóða sem hlotið hafa aðstoð sjóðsins, og trúverðugleiki Íslands og ímynd myndi vafalítið hljóta einhvern skaða af.

Hins vegar verður einnig að taka til greina að þar sem þjóðfélagsgerð hér á landi og grunnstoðir hagkerfisins eru með öðru sniði en í þeim löndum sem hlotið hafa aðstoð frá IMF þá er ekki ólíklegt að þeim skilyrðum sem sjóðurinn hefur sett til grundvallar verði vikið til hliðar að einhverju leyti komi til aðstoðar IMF hér á landi.

Það væri þó úr takti við grundvallarstefnu sjóðsins ef engin skilyrði yrðu sett og óraunhæft að búast við að Ísland fengi slíka sérmeðferð. Búast má við að IMF myndi leggja áherslu á að farin yrði frekar hörð leið að aðlögun í hagkerfinu. Í gengum tíðina hefur IMF lagt mjög mikla áherslu á hagstjórnarlegt aðhald, hvort sem er á sviði peningamálastjórnar eða ríkisfjármála.

Líklegt er að IMF myndi þrýsta á íslensk stjórnvöld að halda vöxtum háum, a.m.k. næsta kastið, og gæta strangs aðhalds í ríkisfjármálum. IMF hefur raunar hlotið gagnrýni fyrir slíkar kröfur í gegnum tíðina en þær gera það að verkum að í hönd fara erfiðir tímar með miklu atvinnuleysi. IMF hefur enn fremur lagt áherslu á markaðslausnir og mun í því samba

ndi eflaust leggja áherslu á að bankarnir sem nú er búið að ríkisvæða yrðu einkavæddir sem allra fyrst á nýjan leik, en ríkisafskipti af þessu tagi standast ekki skoðun til lengri tíma samkvæmt stefnu sjóðsins.

Þá má ætla að IMF myndi krefjast þess að hér verði lagðar grundvallarlínur til að leysa gjaldmiðlamál Íslands til frambúðar. Fastgengisstefna viðlíka þeirri sem hér er nú við lýði myndi ekki fara í gegnum nálarauga þeirra ef marka má þær ráðleggingar sem sjóðurinn hefur gefið öðrum löndum sem hafa lent í gjaldeyriskreppu líkri þeirri sem stendur yfir hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK