Greenspan viðurkennir veikleika í frjálsræðinu

Alan Greenspan
Alan Greenspan Reuters

Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, viðurkenndi í yfirheyrslu fyrir nefnd bandaríska þingsins að veikleiki í hugmyndafræði hans um hinn frjálsa markað hefði átt þátt í lánsfjárkreppunni sem nú riði yfir heimsbyggðina, að því er fram kemur í frétt á Bloomberg-vefnum.

„Já, ég fann veikleika,“ sagði Greenspan í svari við spurningu í þingnefnd fulltrúaráðsins. „Það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að mér er brugðið vegna þess  að í 40 ár eða lengur hef ég talið mig hafa veigamiklar sannanir fyrir því að þetta virkaði sérlega vel.“

Greenspan segir að hann hefði haft „að hluta til“ rangt fyrir sér í andstöðu sinni síðustu ár gegn regluverki fyrir afleiður. Hann sagði í ræðu árið 2005 að innri reglur hefðu almennt „reynst mun betur í að hamla gegn óhóflegri áhættutöku en opinberar reglur.“

Þingnefndarformaðurinn, Henry Waxman, demókrati frá Kaliforníu, sagði að Greenspan hefði haft „valdið til að koma í veg fyrir óábyrgt lánaverklag sem leiddi til undirmálslánakreppunnar.“

„Þér var ráðlagt að gera slíkt af mörgum öðrum,“ sagði hann við Greenspan. „Og nú má allt efnahagskerfi okkar borga brúsann.“

Fyrirtæki sem falbuðu vafninga með undirmálslánum ætti að skylda til að taka á sig hluta slíkra verðbréfa, sagði Greenspan í undirbúnu svari til nefndarinnar, og aðrar reglur ættu síðan að gilda fyrir svik og uppgjör í verðbréfaviðskiptum.

Greenspan var andsnúinn auknu eftirliti á fjármálamarkaði meðan hann var seðlabankastjóri á árunum 1987 til ársins 2006. Nú velti hann því fyrir sér hvað það væri sem farið úrskeiðis eftir að hafa virkað svo vel í nær fjóra áratugi.

Kvaðst hann miður sína að fjármálastofnanir skyldu bregðast því að halda uppi „eftirliti“ með þeim aðilum sem þær áttu skipti við til að forðast meiriháttar tap. Brotalömin væri augljósust á markaðinum þar sem verðbréfafyrirtækin pökkuðu íbúðarlánum inn í skuldabréf til að selja öðrum fjárfestum.

„Eins mikið og ég vildi geta haft það öðru vísi þá sé ég engan annan kost í þessu fjármálaumhverfi heldur en að gera útgefendunum að halda umtalsverðum hluta verðbréfanna sem þeir gáfu út.“ Talsmenn slíks segja að það myndi hvetja fyrirtækin til að tryggja að eignir yrði verðlagðar í samræmi við áhættuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK