Ríkið þarf að taka lán fyrir hundruð milljarða

Nýtt eigið fé bankanna, sem ríkið þarf að leggja þeim til, verður væntanlega hátt í 400 milljarðar króna. Tap Seðlabankans vegna bankabréfa, sem bankinn var með að veði og ríkið þarf einnig að fjármagna, verður líklega vel á annað hundrað milljarða. Þá er fyrirsjáanlegt að halli á ríkissjóði á næsta ári verði yfir eitt hundrað milljarðar króna.

Samanlagt er því útlit fyrir að endurfjármögnun þessara þriggja stóru liða verði á næsta ári um 700 milljarðar króna.

Heildartalan fyrir endurfjármögnunarþörf ríkisins á næsta ári, um 700 milljarðar króna, kemur heim og saman við upplýsingar sem fram komu í máli Friðriks Más Baldurssonar fyrr í vikunni á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en hann hafði umsjón með viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lán sjóðsins til ríkisins.

Hallinn yfir 100 milljarðar

Væntanlega þarf að fjármagna hallann á ríkissjóði, sem ætla má að verði yfir 100 milljarðar króna á næsta ári, með útgáfu skuldabréfa hér á landi. Þá mun ríkissjóður að öllum líkindum leggja bönkunum til nýtt eigið fé með skuldabréfum. Hve mikið af þeim leitar út á markaðinn er ómögulegt að segja til um en ætla má að bankarnir muni nota þau, að minnsta kosti að einhverju marki, til að fjármagna sig inni í Seðlabankanum. Engin leið er hins vegar að segja til um hver fjármögnunarþörf bankanna verður. Það ræðst af eftirspurninni eftir lánum frá þeim. Það sama á væntanlega einnig við um fjármögnun ríkisins á tapi Seðlabankans.

Hugsanlega verður þar um að ræða skuldabréf sem ekki er ljóst hve mikið leita út á markaðinn. Því er mikil óvissa á þessu stigi um hvaða áhrif endurfjármögnun bankanna og Seðlabankans mun hafa á markaðinum. Hins vegar er ljóst að ríkið mun þurfa að gefa út skuldabréf innanlands til að fjármagna hallann á ríkissjóði, væntanlega upp á rúmlega eitt hundrað milljarða.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir líklegt að hallinn á ríkissjóði á næsta ári verði meiri en þeir 60 milljarðar, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

„Mér finnst það liggja fyrir, á einhverjum tímapunkti, að ríkissjóður þurfi að fara í skuldsetningu á innanlandsmarkaði til að fjármagna þennan halla,“ segir Gunnar. „Bjóða þarf upp á mjög örugg verðtryggð ríkisskuldabréf með þó nokkurri raunávöxtun til að þeir sem eru að skila inn gjaldeyristekjum, lífeyrissjóðir og fjármagnseigendur vilji fjárfesta í íslenskum krónum. Það skiptir miklu upp á jafnvægið.“

Gunnar segir að neyslan í þjóðfélaginu muni dragast saman og því muni myndast ákveðið fjármagn í hagkerfinu. „Það þarf að takast að halda þessu fjármagni inni í hagkerfinu því ég held að flestir erlendir viðskiptaaðilar hafi misst tiltrú á krónunni og íslensku hagkerfi. Því skiptir máli að innlendir aðilar sjái sér hag í því að fjárfesta í sparnaði með öruggri ábyrgð í formi verðtryggðra ríkisskuldabréfa með ásættanlegri ávöxtun,“ segir Gunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK