Ekki hægt að taka aðra ákvörðun

Sverrir Vilhelmsson

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi, segist ekki geta séð að stjórn Kaupþings hafi getað tekið aðra ákvörðun en hún tók í september. Þar var ákveðið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem tekin voru vegna kaupréttarsamninga.Þetta kemur fram í yfirlýsingu Gunnars Páls á vef VR.

„Eins og fram hefur komið í fréttum samþykkti stjórn Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem tekin voru vegna kaupréttarsamninga.

Sem stjórnarmaður í Kaupþingi var það skylda mín að verja hagsmuni hluthafanna. Þegar fjallað var um það á stjórnarfundi bankans að heimila forstjóranum að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna var mér efst í huga sú skylda að tryggja hag bankans og umbjóðenda minna. Engin teikn voru á lofti um að bankar landsins yrðu fljótlega ríkiseign, allra síst Kaupþing sem að allra mati var afar stöndugur banki með alla burði til þess að standa af sér þrengingar í bankakerfinu. Á þeim tíma var verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa starfsmanna bankans meira en fjárhæð eftirstöðva skulda. Ég tók því ákvörðun eftir minni bestu samvisku og í ljósi þeirrar sterku stöðu sem bankinn var í. Við stóðum frami fyrir tveimur kostum:
  1. Að segja við lykilstarfsmenn að selja hlutabréfin og greiða upp lánin. Sala lykilstjórnenda á hlutabréfum er tilkynningarskyld til Kauphallarinnar og því hefði sala bréfanna væntanlega leitt til ofsaótta á markaðinum og að öllum líkindum verulegs söluþrýstings frá öðrum aðilum. Öll rök benda til að slíkt ferli hefði leitt til þess að hlutabréf í bankanum hefðu fallið eins og steinn og hugsanlega leitt bankann í þrot af þeim sökum.
  2. Að líta svo á að bankinn væri traustur og að hann myndi komast í gegnum erfiðleikana. Hugsanlega mætti þó búast við að hlutabréfaverð félli um 10-20% í viðbót í vetur en þegar rofaði til aftur, risi hlutabréfaverðið og veð bankans gagnvart umræddum skuldum yrðu fullnægjandi á ný. Ég leit svo á að við værum því ekki að samþykkja að fella niður skuldir heldur að víkja tímabundið frá skilmálum um veðtryggingar. Markmiðið var að verja bankann frá falli. Því miður breyttist staðan og eftir á að hyggja var sú ákvörðun byggð á röngum forsendum.

Þegar ég fer yfir stöðuna aftur nú í ljósi þess sem gerðist eftir stjórnarfundinn í september á ég enn erfitt með að sjá að við hefðum getað tekið aðra ákvörðun. Ef við hefðum valið þá leið að segja starfsmönnum að selja hlutabréfin og greiða upp lánin sæti fyrri stjórn bankans væntanlega undir ekki síður harkalegri gagnrýni um að hafa hyglt stjórnendum, að stjórn hafi séð fyrir það sem varð og heimilað starfsmönnum að selja á undan öðrum til þess að þeir gætu greitt upp skuldir. Væntanlega sætum við einnig undir gagnrýni að sú aðgerð hefði leitt til falls bankans.

Ég tel að þessa stöðu bankans, varðandi hlutabréfakaup starfsmanna, megi rekja til þess að farið var of geyst í að tengja hagsmuni bankans við hagsmuni starfsmanna. Sú leið að „árangurstengja laun" er hugsanlega góð á uppgangstímum en sýnir sig nú að geta haft skelfilegar afleiðingar.

Ég hef setið í stjórn Kaupþings í 7 ár fyrir hönd lífeyrissjóðanna. Í nóvember 2003 sætti ég gagnrýni fyrir setu mína í stjórninni en þá voru miklar umræður í þjóðfélaginu um samþykktir stjórnar bankans um háar launagreiðslur og kauprétti til yfirmanna hans.

Ég sat hjá við atkvæðagreiðsluna í stjórn bankans um launakjörin og bókaði andstöðu mína þar sem fram kom að ég gæti ekki stutt þessa ákvörðun. Síðan þá, í anda góðra stjórnarhátta, hefur starfskjarastefna bankans og hlutabréfakaupréttir verið lögð fyrir aðalfundi Kaupþings. Engar athugasemdir komu fram hjá hluthöfum við þessa stefnu.

Á fundi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna í VR í janúar 2004 lagði ég fyrir fundinn hvort ég nyti trausts til setu í stjórnum fyrirtækja og banka fyrir hönd lífeyrissjóðsins. Niðurstaðan var afgerandi, rúmlega 70% fundarmanna töldu að formaður VR í starfi sínu sem stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, ætti að sitja í stjórnum fyrirtækja og banka, hlutverk hans ætti fyrst og fremst að vera að standa vörð um hagsmuni sjóðsfélaga. Seta í stjórnum fyrirtækja eða banka sem sjóðurinn hefði fjárfest í væri mikilvæg og gæfi fulltrúa lífeyrissjóðsins færi á að hafa áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis eða banka.

Ég vil líka taka fram að hvorki ég né eiginkona mín, Ásta Pálsdóttir sem starfar hjá Kaupþingi, erum í hópi þeirra sem hafa fengið niðurfellingu á persónulegum ábyrgðum. Við erum bæði listuð upp í frétt í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 4. nóvember sem þátttakendur og innherjar í hlutafjáraukningu árið 2004.

Ásta eiginkona mín er skilgreind sem lykilstarfsmaður hjá Kauþingi  og vinnur við uppgjör og skýrslugerð. Við hjónin tókum okkar hlut í hlutafjáraukningunni, minn hlutur var um kr. 123.000 og hlutur konunnar um kr. 340.000. Við hjónin áttum samtals rúmlega kr. 8 milljónir í hlutabréfum í Kaupþingi  við fall bankans, við skulduðum bankanum ekkert og engin lán voru felld niður," að því er segir í yfirlýsingu formanns VR.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK