Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, flytur ræðu sína í morgun.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, flytur ræðu sína í morgun. mbl.is/Kristinn

Ekki fer á milli mála að ræða Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á fundi Viðskiptaráðs í morgun á eftir að vekja mikla athygli. Þó að Davíð talaði stundum undir rós, og jafnvel eilítið þokukennt, eins og hann sagði sjálfur að væri seðlabanka háttur, var samt hoggið á báðar hendur svo fremur minnti á vígreifan stjórnmálamann en ofurvarkáran seðlabankastjóra.

Vissulega var þetta varnarræða - varnarræða fyrir hann, Davíð Oddsson, og varnarræða fyrir Seðlabanka Íslands og félaga hans í bankastjórninni. Eins og Davíðs hefur verið háttur beitti hann gagnsókn til að koma sök af Seðlabankanum og þangað sem hann telur hennar fremur að leita. Hann orðaði það þannig sjálfur - að það væri mikil eftirspurn eftir sökudólgum um þessar mundir, en harla lítið framboð. 

„En aldrei slíku vant hefur sú mikla markaðsregla, mikil eftirspurn andspænis litlu framboði, ekki leitt til þess að verð á sökudólgum hafi hækkað að ráði. En ég er ekki frá því að síðustu vikurnar hafi Seðlabanki Íslands og forystan þar verið í toppsæti á sökudólgalistanum og það er eiginlega ekki hægt annað en að dást svolítið að því, að það hafi gengið svona lengi, svo langsótt sem það er, " sagði Davíð og bætti svo við: „Og það magnaða er að á bak við þann áróður allan standa m.a. þeir sem mesta ábyrgð bera á því hversu illa tókst til.“

Hvert skyldi svo sökinni aðallega verið beint?

Að Fjármálaeftirlitinu sem væri nú meira og minna með öll þau eftirlitstól sem Seðlabankinn hafði áður en lögum var breytt rétt fyrir síðustu aldamót. Að útrásarmönnunum og fjölmiðlunum sem meira og minna hefðu verið í þeirra eigu. Að stóru bönkunum sjálfum, m.a. fyrir að hafa látið einn aðila komast upp með að skulda þeim um þúsund milljarða - og varð ekki skilið öðru vísi en Davíð vísaði þar beint til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Síðast en ekki síst verður að líta á ræðu Davíðs sem alvarlegan áfellisdóm yfir ríkisstjórn og ráðherrum fyrir að hafa skellt skollaeyrum við skýrslu seðlabankamanna eftir upplýsingaferð þeirra til Lundúna í febrúar sl. og var þá skýrslan í heild sinni lesin upphátt fyrir þá til áhersluauka, eins og skilja mátti Davíð.

Í þessari skýrslu kom fram að ljóst væri „að áhyggjur af Íslandi litast eingöngu af áhyggjum af íslensku bönkunum, og talið að fyrirferð þeirra í fjármálalífi Íslendinga sé slík, að verði þeim hált á svelli, þá detti aðrir með þeim.“

Fjármálaeftirlitið með eftirlitstólin 

Davíð Oddsson svaraði fyrst þeirra gagnrýni sem beinst hefur að Seðlabanka Íslands fyrir að hafa ekki staðið vaktina og ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu t.d. með bönkunum.

„Í öllu þessu gerningaveðri og galdrafári hefur tekist að horfa fram hjá því að árið 1998 var lögum á Íslandi breytt svo, að bankaeftirlit var undan Seðlabanka Íslands tekið og með því fóru nær allar heimildir bankans og skyldur til að fylgjast með því sem var að gerast innan bankakerfisins. Eftir sitja verkefni á borð við lausafjárskýrslur, gengisjafnaðarreglur, veðlán og fleira þess háttar, sem litlu máli skipta í því sem nú hefur gerst. Allar leyfisveitingar sem snúa að fjármálastofnunum voru færðar frá Seðlabanka til nýs Fjármálaeftirlits,“sagði seðlabankastjóri og bætti við: 

„Það má vera að það hafi verið mikil mistök að færa fjármálaeftirlit undan Seðlabanka, en það er önnur saga.“

Í þessu sambandi verður þó vart komist hjá því að benda á að þegar lögin um Fjármálaeftirlitið voru samþykkt og fólu í sér að bankaeftirlit Seðlabankans og Vátryggingaeftirlitið voru sameinuð í einni sjálfstæðri stofnun, þá var Davíð Oddsson einmitt forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem ákvað þessa breytingu. Hún rann í gegnum þingið án nokkurrar teljandi umræðu og virðist hafa verið víðtæk sátt um breytinguna.

En það má vera rétt hjá Davíð, að þetta hafi verið eitt af tískufyrirbrigðum tíðarandans sem þá var og er e.t.v. eitt af fjölmörgum atriðum um veikt eftirlit og regluverk sem hljóta að koma til endurskoðunar eftir hrunið.

Þá verður einnig að benda á að nánast frá byrjun sat einn bankastjóra Seðlabankans í stjórn Fjármálaeftirlitsins - fyrst Finnur Ingólfsson, sem mælt hafði fyrir frumvarpinu sem viðskiptaráðherra og varð síðan seðlabankastjóri en síðan Ingimundur Friðriksson allt fram undir lok síðasta árs eða byrjun þessa að Stefán Svavarsson, aðalendurskoðandi Seðlabankans, tók stöðu hans, en hann var einnig um árabil stjórnarformaður FME. Svo að málefni Fjármálaeftirlits hafa aldrei frá stofnun þess verið Seðlabanka Íslands alveg óviðkomandi.

Viðvaranir Seðlabanka

Davíð nefndi einnig staðhæfingar um að bankakreppan hafi komið sem þruma úr heiðskíru lofti. Bankarnir sem fóru í þrot hafi haldið því fram upp á síðkastið að í raun hafi hlutirnir verið í bærilegu lagi hjá þeim, en framganga stjórnvaldanna hafi leitt þá í þrot. 

Hann benti á að þótt seðlabankamenn hér sem annars staðar töluðu alla jafna varlega og stundum örlítið þokukennt, þá væru það hreinar rangfærslur að segja, að forráðamenn Seðlabanka Íslands hafi ekki fyrir löngu gert sér grein fyrir stöðunni né varað við henni. „Það var gert bæði ítarlega út á við og enn ítarlegar inn á við,“ sagði Davíð og rakti síðan nokkur dæmi um slíkar viðvaranir.

Hann tiltók ummæli í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans 2007 þar sem hann vék að útrásinni: „Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Davíð sagði einnig á þessum sama fundi: „Við vitum að víða er uppgangur okkar lofti blandaður. Við því er ekkert að segja og það er eðlilegt að þættir eins og óefnislegar eignir séu fyrirferðarmiklar á uppgangstímum þegar vel gengur, en þegar á móti blæs og harðnar á dal, þarf aðeins lítið gat til að loftið leki úr slíkum eignum.“

Þetta sagði Davíð dæmi um þung aðvörunarorð af hálfu Seðlabankans, og varla er hægt að tala skýrar um yfirvofandi bólu en Davíð gerir hér. Hann segir samt að á þessi aðvörunarorð hafi lítt verið hlustað og því ekki eftir þeim farið en veltir því fyrir sér hvort ekki sé líklegt að það hefði fremur verið gert ef fjölmiðlar landsins hefðu ekki verið í þeim heljarfjötrum sem þeir hafa verið í um alllanga hríð? Hann átti eftir að víkja nánar að fjölmiðlum eins og vikið verður að síðar. Davíð segir að bankastjórnin hafi þannig átt allmarga fundi með ráðherrum og embættismönnum til að lýsa þungum áhyggjum sínum.

„Þar með talið allmarga fundi með báðum formönnum stjórnarflokkanna, ýmsum öðrum ráðherrum og embættismönnum. Viðbrögð þessara aðila voru ekki óeðlileg. Þau voru oftast nær þau, að í kjölfarið af fundi með bankastjórn Seðlabankans áttu þeir fundi með forustumönnum viðskiptabankanna sem fullvissuðu ráðamenn um það að áhyggjur Seðlabankans væru a.m.k. mjög ýktar, fjármögnun bankanna væri góð út árið 2008 og nánast að fullu tryggð út árið 2009.“

Hlustaði ríkisstjórnin ekki?

Merkilegasti kaflinn í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, í morgun er frásögnin af skýrslu um fundi fulltrúa Seðlabankans í London í fyrri helmingi febrúarmánaðar á þessu ári með háttsettum mönnum í fjölmörgum stærstu bönkunum, sem mest viðskipti áttu við Ísland og íslensk fyrirtæki, og eins fundum með matsfyrirtækjum sem þar eru staðsett.

„Þótt Seðlabankamenn hafi lengi haft áhyggjur af stöðu bankakerfisins, varð þeim mjög brugðið vegna þeirra viðhorfa, sem komu fram á fundunum í London. Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti,“ sagði Davíð.

Davíð rakti í nokkrum orðum hvað komið hefði fram í skýrslunni m.a. að lokaspurning erlendu bankamannanna hefði verið sú, hvað gerðist ef íslensku bankarnir kæmust ekki, eða ekki svo neinu nemi, á markaðina næstu tólf mánuði eða svo? „Svar Seðlabankamanna var efnislega það, að ef slíkt gerðist, þá væru erfiðleikarnir orðnir mjög miklir fyrir íslensku viðskiptabankana, en á það yrði að benda að við þær aðstæður hlyti bankaheimurinn allur að standa svo illa að tala mætti um bankakreppu, ef ekki heimskreppu. En þessi spurning [ ], svo ónotaleg sem hún virtist, varð Seðlabankamönnum skiljanlegri þegar leið á þessa fundaferð."

Síðan segir í skýrslunni sem Davíð las upp úr og nú ber að hafa hugfast að þetta er skrifað í byrjun ársins:

„Það mundi vissulega ekki hjálpa Kaupþingi á nokkurn hátt að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi, eins og sumir viðmælendur töldu álitlegan kost, en það mundi hins vegar létta stöðu annarra banka mikið og vera jákvætt fyrir fjármálalíf Íslands eins og staðan er, því þá mundi verða talið að íslenski Seðlabankinn og ríkið myndu geta bjargað þeim bönkum sem eftir væru frá falli, ef sú neyðarstaða yrði uppi. Það var talin ein meginskýring á háum CDS (skuldatryggingarálag) kjörum þessara banka, að þessi staða sem seðlabankamenn væru að kynnast til fulls núna og kyngja, væri tiltölulega vel þekkt á markaði og því hefði skortsstaða verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim algerlega lokaðir lengi og til viðbótar kæmi að íslenski Seðlabankinn og ríkið væru ekki af þeirri stærð og styrk til að hafa bolmagn til að bjarga þeim frá falli, þótt vilji stæði til þess. Sumir töldu að það eina sem gæti slegið á þessi háu eftirá kjör væri ef íslenski Seðlabankinn gæti náð samningi við erlenda seðlabanka um að veita bankanum fyrirgreiðslu í nauð, sem dygði til þess að hann gæti staðið að sínu leyti til við björgunaraðgerðir á íslensku bankakerfi. Niðurstaðan er þessi: Það er ljóst, að íslensku bankarnir [ ] hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, og jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. Ekki er hægt að útiloka að miklu fyrr rætist úr markaðsaðstæðum og aðgengi að fjármagni en nú er talið. Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.“

Davíð Oddsson sagði síðan, að þegar menn heyrðu allar þessar tilvitnanir, sem bæði hafi verið settar fram opinberlega og óopinberlega, fyrir alla þá menn er málið varðar væri undarlegt að heyra hróp gerð að Seðlabankanum vegna þess að hann hafi setið hjá og ekki gert sér grein fyrir ástandinu og því ekki getað varað aðra við. Þessi dæmi og svo mörg, mörg önnur að Seðlabankanum hafi verið vel ljóst, jafnvel betur en öðrum, „hve alvarleg staðan var, og ráðlagði eindregið að brugðist yrði við.“

Hvernig komið er fyrir þjóðinni þessa stundina gefur ótvírætt til kynna að ekki hafi verið brugðist við viðvörunarorðum skýrslunnar og verða þessi orð því varla skilin öðru vísi en hörð ádeila á ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi.

Lánaglaðir bankar og múlbundnir fjölmiðlar

En Davíð Oddsson seðlabankastjóri lét síður en svo staðar numið í gagnrýni sinni því að hann átti eftir að víkja að hlut bankanna og á ný að stöðu fjölmiðlanna. Davíð spurði:

„Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá, ekki sparisjóðina, lífeyrissjóðina eða ýmsa aðra aðila, sem viðkomandi skuldaði né erlendar skuldir sama aðila. Eftir að bankaeftirlitið var fært frá Seðlabankanum gat hann ekki aflað sér upplýsinga um slíkt. Hann gat ekki vitað það. En það vissu aðrir, á því getur ekki verið neinn vafi. Eitt þúsund milljarða skuld eins aðila í íslenska bankakerfinu er erfitt að skilja, jafnvel svo erfitt að menn leiða hana hjá sér. En það má ekki víkja sér undan að horfa á þessa mynd. Einn aðili skuldaði með öðrum orðum bönkunum þremur um eða yfir eitt þúsund milljarða króna. Það er hærri fjárhæð en allt eigið fé gömlu bankanna saman lagt. Bankastjórarnir sem lánuðu hver fyrir sig hlutu að vita að samanlagt væri dæmið þannig. Vegna þess að þeir horfðu ekki aðeins á lánsfé eigin banka, heldur fengu þeir öll gögn vegna veðtöku áður en stærstu einstöku lán bankans voru veitt, eða það skyldu menn ætla. Og eftirlitsaðilar hljóta að hafa vitað það líka og hafa því teygt sig með ólíkindum langt til að finna út að sami aðili væri óskyldur sjálfum sér við þessar aðstæður. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Hvaða heljartök hafði viðkomandi á bönkunum og öllu kerfinu? Það er algerlega víst að ef erlendum viðskiptaaðilum bankanna hefði verið þessi staða ljós, hefðu öll viðskipti við bankakerfið þegar verið stöðvuð erlendis frá, og bankarnir hefðu í kjölfarið hrunið.“

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að greina að hér vísar seðlabankastjóri til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og ómælts lánstrausts hans í íslenska bankakerfinu. Í leiðinni er deilt á íslensku fjölmiðlana, ekki síst vegna eigandahaldsins, þ.e. ítaka Jóns Ásgeirs í miðlum 365, væntanlega með sama hætti ítaka Bakkavararbræðra í Viðskiptablaðinu í gengum Exista, og ítaka Björgólfs Guðmundssonar í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

„Er hugsanlegt að umræða hefði vaknað í þjóðfélaginu um þessi atriði og önnur, ef allir frjálsir fjölmiðlar, sem er reyndar skondið orð í þessu samhengi, hefðu ekki verið í höndunum á eigendum bankanna?“spyr Davíð enn og bætir við: „Og það hefur verið upplýst að nýju bankarnir haldi áfram háttum gömlu bankanna og láti menn sem skulda yfir þúsund milljarða í bankakerfinu ekki í gjaldþrot, en gangi fljótt og vel að Jóni og Gunnu, sem eru þó nú orðin eigendur bankanna á ný.“

Hvað á seðlabankastjóri við?

Davíð segir það kröfu Seðlabanka Íslands að hlutur hans í bankahruninu, sem ýmsir vilja gera sem mestan, verði rannsakaður. „Sú rannsókn verður einföld. Starfsmenn Seðlabankans hafa ekkert að óttast. En það er hlálegt að þrátt fyrir þau hróp sem skipulögð eru og gerð eru að þessari stofnun, þeirri stofnun sem ein varaði við þróuninni á annað ár, þá er það svo að sennilega ætti Seðlabanki Íslands að vera lang lang aftastur í rannsóknarþarfarröðinni. Það er meginkrafa að það sé upplýst hver hin raunverulega staða bankanna var. Það rannsóknarferli, sem þegar hefur verið kynnt, er með öllu óframbærilegt og ófullnægjandi. Það er allt að því skondið að sjá tilburðina í öllum þeim skipulega áróðri og herferð sem fram hefur farið, m.a. af hálfu þeirra sem mesta ábyrgð bera á bankahneykslinu.“

Davíð víkur síðan að því að reynt hafi verið að læða því að almenningi að orð sem féllu í viðtali við sig í Kastljósi, hefðu orðið til þess að bresk yfirvöld hefðu sett hefndarverkalög á Ísland og fryst eignir Landsbankans - og margir munu staldra við þau orð hans sem hér á eftir að ekki séu öll kurl komin til grafar - eða svo vitnað sé orðrétt í ræðuna:

„Þetta er endurtekið í síbylju, síðast í Stöð 2 í gær með mjög óskammfeilnum hætti, en það merkilega er að bresku yfirvöldin hafa aldrei haldið þessu fram, aldrei minnst á þetta einu einu orði, þótt vitað sé að bæði þeir Gordon Brown og Alistair Darling séu miklir áhugamenn um Kastljósið og horfi á það nánast á hverju kvöldi! Þeir hafa hins vegar skýrt hvers vegna þeir gripu til þessa óyndisúrræðis. Það hafa ekki öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar og þess vegna er auðveldara að bera fram tilbúnar sakir og koma þeim inn hjá trúgjörnu fólki í gegnum þá fjölmiðla sem „grímulaust hafa verið misnotaðir í mörg ár" eins og það var orðað af sjónvarpsmanninum. Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð, þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda,“ sagði Davíð.

Hvað er hér gefið í skyn? Þarfnast þetta ekki nánari skýringa - er þetta ekki rannsóknarefni út af fyrir sig?

Ræða Davíðs Oddssonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK