Millibankamarkaður á morgun

Seðlabankinn ætlar að hefja á ný millibankamarkað með gjaldeyri á morgun og verður krónan þarmeð látin fljóta. Segir bankinn, að þessi skipan stuðli að eðlilegri þróun því gengi krónunnar verði að ráðast af framboði og eftirspurn á markaði en ekki með sölu á gjaldeyri úr forða Seðlabankans eins og verið hefur að undanförnu.

Undanfarnar vikur hefur verið stuðst við bráðabirgðaskipan gjaldeyrisviðskipta milli fjármálafyrirtækja á svonefndum tilboðsmarkaði Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn hefur nánast verið eini seljandi gjaldeyris á þeim markaði. Gengið hefur mótast af kauptilboðum annarra og ákvörðun Seðlabankans hverju sinni.

Seðlabankinn hefur nú sett reglur um gjaldeyrismarkað að höfðu samráði við fjármálafyrirtæki og taka þær gildi á morgun. Í þeim er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki gerist viðskiptavakar með gjaldeyri. Skilyrði um fjárhæðir og tíðni tilboða eru vægari en þau sem viðskiptavakar þurftu áður að uppfylla á millibankamarkaði. Er það bæði vegna þess að burðir þeirra til umfangsmikilla viðskipta eru minni nú og einnig er talið æskilegt að fleiri fjármálafyrirtæki verði viðskiptavakar en bankarnir þrír sem sinntu því hlutverki til skamms tíma.

Í fyrstu verða viðskiptavakarnir þrír, þ.e. NBI, Nýi Glitnir og Nýja Kaupþing, en þess er vænst að þeim fjölgi, að sögn Seðlabankans, sem segir að þátttaka bankans á gjaldeyrismarkaði sé ekki útilokuð á næstunni. Komi til hennar mun hún miða að því að draga úr óhóflegum sveiflum en ekki að styðja eitthvert ákveðið gengi.

„Framfarir á skipan gjaldeyrismála byggjast á því að gjaldeyrir sem útflutningsgreinar afla skili sér til fjármálafyrirtækja og þau eigi viðskipti sín á milli á skipulögðum markaði. Eins og fram kom í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabankans 28. nóvember sl. er raungengi krónunnar nú mjög lágt. Snarpur viðsnúningur á viðskiptum við útlönd, aðhaldssöm peningastefna og reglurnar sem gildi tóku síðastliðinn föstudag eftir að Alþingi hafði breytt lögum um gjaldeyrismál er allt til þess fallið að styðja við gengi krónunnar," segir í tilkynningu Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK