Sami maður beggja vegna borðsins

Undanfarin ár hafa nokkur viðskipti hér á landi vakið spurningar og umræðu um viðskipti tengdra félaga, þar sem segja má að sami aðili sitji beggja vegna borðsins. Þegar sami einstaklingur fer annars vegar fyrir almenningshlutafélagi og hins vegar fyrir eignarhaldsfélagi, sem er alfarið í hans eigu, er hætta á að einstaklingurinn hygli eignarhaldsfélaginu á kostnað hins fyrrnefnda.

Þegar Kaldbakur sameinaðist Burðarási í árslok 2004 vöknuðu spurningar um viðskipti með bréf Kaldbaks dagana áður en tilkynnt var um samruna félaganna.

Þann 22. september 2004 seldi KEA 27,1% hlut sinn í Kaldbaki til Kaldbaks sjálfs á genginu 7,9. Nam kaupverðið því um 3,74 milljörðum króna. Þessi hlutabréf voru svo framseld til Samson Global Holdings, félags Björgólfsfeðga, á sama gengi.

Tveimur dögum síðar, þann 24. september, var greint frá því að Kaldbakur og Burðarás myndu sameinast. Náðst hefði samkomulag við þrjá stærstu hluthafa Kaldbaks, Samson með 27,1%, Samherja með 25% og Baug með 24,8%, um kaup á bréfum þeirra. Fengju þeir í staðinn hlutabréf í Burðarási.

Athygli vakti á þeim tíma að miðað við skiptahlutfall viðskiptanna keypti Burðarás bréfin í Kaldbaki á genginu 9,16. Bréfin, sem Samson hafði keypt á 3,74 milljarða, seldi hann því Burðarási á 4,34 milljarða. Hagnaðist Samson því um 600 milljónir króna á þeim tveimur dögum, sem liðu frá kaupum félagsins á hlutabréfum í Kaldbaki og þar til ákveðið var að selja bréfin til Burðaráss.

Björgólfur Thor Björgólfsson, sem átti Samson ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, var á sama tíma stjórnarformaður Burðaráss.

Þá er athyglisvert að sjá að með viðskiptunum fékk Samson 2,97% í Burðarási fyrir áðurnefnda 4,34 milljarða króna, sem samsvarar gengi upp á 14,36. Á þessum degi var gengi bréfa Burðaráss hins vegar 15,00. Hefði Samson því keypt 2,97% í Burðarási á opnum markaði þann 24. september 2004 hefði félagið þurft að greiða fyrir það rúma 4,53 milljarða, eða 190 milljónum króna meira.

Samson hagnaðist því samtals um tæpar 800 milljónir á viðskiptunum. Annars vegar á því að selja Burðarási bréf í Kaldbaki fyrir 600 milljónum hærra verð en Samson keypti bréfin á aðeins tveimur dögum fyrr. Hins vegar með því að fá 2,97% í Burðarási á 190 milljónum lægra verði en ef bréfin hefðu verið keypt á markaði.

Hafa ber í huga að Kaldbakur og Burðarás voru bæði almenningshlutafélög, skráð í Kauphöll og voru hluthafar hvors um sig þúsundir talsins. Björgólfur Thor, í krafti 16,84% eignar Samson í Burðarási, var formaður stjórnar félagsins og sat því báðum megin borðs þegar samningur Samson og Burðaráss var gerður.

„Erfitt er að sjá að Björgólfur hafi verið að gæta hagsmuna hluthafa Burðaráss, þegar hann lætur þá borga 800 milljónum króna meira fyrir eign, sem hann keypti sjálfur nokkrum dögum fyrr,“ segir Jón Steinsson.

En hverjir voru hluthafar Burðaráss á þessum tíma? Stærstu hluthafarnir voru Samson og Landsbankinn, sem báðir voru undir stjórn Björgólfsfeðga. Í hópi 20 stærstu hluthafa Burðaráss voru hins vegar sjö lífeyrissjóðir, sem samtals áttu tæp 9% í félaginu. Voru það Lífeyrissjóðir Bankastræti 7, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður sjómanna, Framsýn, Samvinnulífeyrissjóðurinn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður Vestfirðinga. Enginn lífeyrissjóðanna gerði athugasemdir við þessi viðskipti á opinberum vettvangi eða lét reyna á rétt skjólstæðinga sinna fyrir dómi.

Á morgun verður fjallað um kaup Baugs hf. á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK