Handtekinn fyrir 50 milljarða dala svikamyllu

Bernard Madoff.
Bernard Madoff. AP

Fyrrverandi stjórnarformaður Nasdaq hlutabréfamarkaðarins í New York var handtekinn í gær fyrir verðbréfasvik, sakaður um að reka leynilegt fjárfestingafyrirtæki sem tapað hefði 50 milljörðum dala á því sem hann sjálfur kallar „eina stóra lygi“ að því er AP-fréttastofan hefur eftir saksóknaranum.

Fjármálamaðurinn Bernard Madoff hafði áður játað fyrir fáeinum starfsmönnum sínum að ráðgjafafyrirtæki sitt á sviði fjárfestinga væri ein allsherjar svikamylla eða „Ponzi-scheme“ eins og heimamenn kalla það, og svipar til píramídasvindls. 

Í gærmorgun bönkuðu svo tveir alríkislögreglumenn upp á heima hjá honum. „Við erum hér til að kanna hvort það sé einhver sakleysisleg skýring til,“ spurði annar þeirra Madoff, stofnanda  Bernhard L. Madoff Investment Securities LLC.

Nei, það var engin sakleysisleg skýring, svaraði Madoff sem er sjötugur að aldri. Hann kvaðst aðallega hafa verið með stofnanafjárfesta í viðskiptum og tapað öllum peningum þeirra. Hann sagðist hafa greitt fjárfestunum með  peningum „sem ekki voru til staðar“ og kvaðst gera ráð fyrir því að verða fangelsaður. Að svo búnu var Madoff handtekinn, síðan færður fyrir dómara sem kynnti honum ákæruatriðin og hann eftir það látinn laus gegn 10 milljón dala tryggingu sem hann greiddi með skuldabréfi með veði í íbúð sinni og undirritað af eiginkonu hans.

Madoff hélt hinu leynilega ráðgjafafyrirtæki aðskildu frá verðbréfafyrirtækinu sjálfu, var þar með 11 til 25 aðila í viðskiptum og alls um 17 milljarða dala í fjárstýringu. Starfsmennirnir skildu játningu hans fyrir þeim á þann veg, að hann hefði greitt sumum fjárfestunum ofurháa ávöxtun með fjármunum annarra ólíkra fjárfesta og þannig haldið keðjunni gangandi þar til fjármálakreppan gerði það að verkum að hann varð uppiskroppa með fé. Í ákærunni eru fjárfestarnir ekki nefndir en á Bloomberg-vefnum segir að þeir hafi aðallega verið vogunarsjóðir en einnig auðugir einstaklingar.

Verjandi Madoff Dan Horwitz segir hann „heilsteyptan mann“ sem muni halda uppi vörnum í málinu. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi og hámarkssekt upp á um 5 milljónir dala.

Bernard L. Madoff Investment Securities LLC hefur verið talið meðal traustustu verðbréfafyrirtækja Bandaríkjanna. Það er í 23. sæti yfir helstu markaðsvakanna á Nasdaq, þar sem Madoff hefur verið í forystu og formaður nefndar þeirra sem lagt hefur á ráðin um fyrirkomulag rafrænna viðskipta á markaðnum. Einnig hefur hann verið í nefnd þeirri sem annast hefur samskipti verðbréfamarkaðarins við verðabréfa- og fjármálaeftirlitið bandaríska um regluverkið fyrir markaðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK