Skilanefnd Giftar skilar umboði sínu

Höfuðstöðvar Samvinnutrygginga voru löngum til húsa að Ármúla 3, þar …
Höfuðstöðvar Samvinnutrygginga voru löngum til húsa að Ármúla 3, þar sem Vátryggingafélags Íslands er nú. Árni Sæberg

Á fulltrúaráðsfundi í Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum (EST) í dag skilaði skilanefnd formlega til baka umboði sínu. Var ákvörðunin tekin eftir að upplýsingar bárust frá stjórn Giftar fjárfestingarfélags ehf. um að eigið fé félagsins væri orðið neikvætt. Skilanefndin taldi starfi sínu því sjálfhætt. Samþykkt var að láta fara fram óháða útttekt á starfsemi eignarhaldsfélagsins.

Samþykkt að framkvæma óháða úttekt á starfseminni

Á fundinum var samþykkt tillaga um að framkvæmd yrði úttekt á starfsemi EST og dótturfélaga undanfarin nítján ár af óháðum og sérfróðum aðila.

Verkefni skilanefndar EST var að skipta einu eign félagsins, hlutafé að nafnvirði fjórir milljarðar króna, á milli fyrrum tryggingartaka þess og sjálfseignarstofnunarinnar Samvinnusjóðsins, allt í samræmi við samþykktir félagsins.

Hins vegar var það ekki verkefni skilanefndarinnar að selja eignir EST og koma þeim í verð og skipta síðan andvirði þeirra á milli eigenda, eins og oftast á við þegar ákveðið er að slíta félagi sem þessu, þar sem fulltrúaráðsfundur EST hafði ákveðið að stofna Gift og láta það starfa með sjálfstæðri stjórn samhliða skiptaferlinu, en eigendur EST myndu síðan eignast hlut í Gift, að því er segir í tilkynningu.

Á fundi fulltrúaráðs EST í dag var kjörin ný stjórn en hana skipa Gunnlaugur Aðalbjarnason, Karl  Stefánsson og Ómar Valdimarsson. Stjórnin á eftir að skipta með sér verkum.

„Á fundinum var sem fyrr segir samþykkt tillaga þar sem nýkjörinni stjórn félagsins er falið að kalla til sérfróðan og óháðan aðila með sérþekkingu á sviði félagaréttar, t.d. Lagastofnun Háskóla Íslands, til að fara yfir öll málefni félagsins frá árinu 1989, þ.m.t. dótturfélagsins Giftar fjárfestingarfélags ehf. frá stofnun þess, til dagsins í dag að telja. Að úttekt lokinni skal skýrsla samin og lögð fyrir fulltrúaráðsfund Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, þar sem hinn sérfróði óháði úttektaraðili gerir grein fyrir niðurstöðum sínum og þeim ályktunum sem hann dregur af þeim.

Úttektaraðilanum skal heimilt að kalla til liðs við sig fleiri sérhæfða óháða aðstoðarmenn, t.d. á sviði reikningsskila, ef hann telur þess þörf, til að athuga einstaka þætti í málefnum félagsins eða dótturfélaga þess. Skýrsla úttektaraðilans skal bregða ljósi á starfsemi Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar undanfarin nítján ár, og dótturfélaga þess, og hvort starfsemin hafi verið athugaverð að einhverju leyti. Ekkert skal dregið undan sem nauðsynlegt er talið til að upplýsa og fá sem gleggsta heildarmynd af málinu. Úttektaraðilinn skal skila skýrslu sinni sem fyrst,"   segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK