Ekki loðnuveiðar að svo stöddu

Hafrannsóknastofnun segir, að bráðabirgðaútreikningar sýni að 293 þúsund tonn mældust af loðnu í leiðangri, sem verið hefur í vikunni. Er það mjög svipað magn og mældist í leiðangri stofnunarinnar fyrr í vetur. Aflaregl við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar og mun stofnunin því ekki leggja til að loðnuveiðar hefjist að svo stöddu.

Mælingu á loðnustofninum lauk í nótt en þrjú veiðiskip, Faxi RE, Lundey-NS og Börkur NK, voru notuð til mælinganna. Öll höfðu skipin mælitæki sem eru sambærileg við þau tæki sem eru um borð í rannsóknaskipum og því hægt reikna út magn loðnu byggt á þeim gögnum.

Bráðabirgðaútreikningar sýna að alls mældust 293 þúsund tonn af loðnu, þar af um 270 þúsund tonn af þriggja og fjögurra ára loðnu. Er það mjög svipað magn og mældist í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar í nóvember-desember á síðasta ári.

Stofnunin segir að aflaregla við loðnuveiðar byggi á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Ljóst sé  að ofangreindar mælingar séu undir því magni og því leggi Hafrannsóknastofnunin til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er áfram við mælingar á loðnustofninum og mun líklega ljúka annarri yfirferð yfir rannsóknasvæðið á sunnudagskvöld. Að því loknu mun rannsóknaskipið verða við framhaldsathuganir og loðnuleit á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK