Sigurður segir engin lög hafa verið brotin

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Kristinn

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir að engin lög hafi verið brotin í tengslum við lán til valinna viðskiptavina bankans sem veitt voru í ágúst og september á síðasta ári. Lánin hafi verið liður í að treysta stöðu Kaupþings.

Yfirlýsing Sigurðar er eftirfarandi:

„Engar reglur né lög voru brotin í tengslum við lán til viðskiptavina bankans sem veitt voru í ágúst og september á síðasta ári. Lánin voru liður í að treysta stöðu Kaupþings og tengjast kaupum viðkomandi aðila á afleiðum tengdum skuldatryggingum (e. Credit Linked Notes) á Kaupþing sjálft.

Hugmyndin af þessum viðskiptum kom frá Deutche Bank sem einnig lánaði þessum aðilum til jafns við Kaupþing, en Kaupþing gat ekki verið beinn kaupandi að afleiðunum. Enginn sem að þessum viðskiptum kom hagnaðist um krónu vegna þeirra. Rétt er einnig að benda á að það tjón sem kann að verða vegna þessara lánveitinga mun því miður allt lenda á kröfuhöfum bankans, það er, skuldabréfaeigendum og bönkum. Fullyrðingar um að þessar lánveitingar hafi lent á íslenskum innstæðueigendum eða hluthöfum eru rangar.

Þegar lánin eru veitt upphaflega í águst og byrjun september síðastliðinn er skuldatryggingaálag Kaupþings afar hátt. Stjórnendum bankans var ljóst að ákveðnir aðilar á markaðinum voru að spila með skuldatryggingar bankans. Sífelld hækkun skuldatryggingaálagsins var mikil ógnun við Kaupþing og hina íslensku bankana eins og íslenskir og erlendir fjölmiðlar þreyttust ekki á að benda á. Með þessum viðskiptum var ætlunin að kanna hve djúpur markaðurinn með skuldatryggingarnar á bankann væri og veita viðspyrnu gagnvart þeim aðilum sem skipulega unnu gegn bankanum og þar með íslensku efnahagslífi í gegnum skuldatryggingaálagið. Stjórnendur bankans álitu það mjög mikilvægt fyrir framtíð hans að spyrna þarna við fótum enda var þróun skuldatryggingaálagsins í raun hægfara áhlaup á bankann. Einnig er ljóst að hefði þessi þróun skuldatryggingaálagsins haldið áfram var einungis spurning um tíma hvenær lánalínur bankans hefðu farið að lokast.

Þegar þessi ákvörðun var tekin var lausafjárstaða Kaupþings mjög góð og voru þessi viðskipti gerð í ljósi þess. Við stjórnendur töldum okkur einungis vera að gæta að hag bankans. Enginn okkar sá fyrir þá þróun sem hrundið var af stað með falli Lehman Brothers um miðjan september og vanhugsuðu inngripi seðlabankastjóra í málefni Glitnis þann 29. september sem felldi íslensku bankana á undraskömmum tíma með hámarkstjóni fyrir alla sem að þeim stóðu.

Einnig er jaframt ósmekklegt að sjá hvernig ítrekað og markvisst er reynt að gera allt sem viðkemur Kaupþingi tortryggilegt með því að dreifa röngum sögum um bankann. Tilgangur þessa athæfis er að varpa rýrð á starfsemi Kaupþing og draga um leið athyglina frá því sem að máli skiptir. Ég fullyrði hins vegar að engin lög voru brotin vegna þessara viðskipta sem annarra sem bankinn stóð að."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK