Tap Eimskip 648,4 milljónir evra

Tap Eimskipafélagsins á síðasta rekstrarári, sem lauk þann 31. ágúst sl., nam 648,4 milljónum evra. Miðað við gengi evrunnar í dag svarar þetta til 96,66 milljarða íslenskra króna. Árið á undan nam tap félagsins 9,1 milljón evra eða 1,36 milljörðum króna miðað við gengi evru í dag.

Eigið fé neikvætt um 134,2 milljónir evra

Heildareignir félagsins námu 1.943,9 milljónum evra í lok fjórða ársfjórðungs. Heildarskuldir námu 2.078,1 milljónum evra í lok fjórðungsins. Nettó vaxtaberandi skuldir við lok tímabilsins voru 828,8 milljónir evra. Í lok fjórða ársfjórðungs var eigið fé neikvætt um 134,2 milljónir evra, sem jafngildir 20 milljörðum króna miðað við gengi evru í dag.

Veltufé frá rekstri var jákvætt um 42,7 milljónir evra á rekstrarárinu. Rekstrartengdar eignir umfram skuldir lækkuðu um 22,8 milljónir evra á sama tímabili.

Heildarfjárfestingahreyfingar á rekstrarárinu voru um 35,6 milljónir evra, og er stór hluti þess fjárfestingar í tveimur frystiskipum í Noregi. Heildar­fjármögnunar­hreyfingar voru neikvæðar um 43,5 milljónir evra og lækkaði handbært fé um 46,4 milljónir evra á tímabilinu. Handbært fé var 32,7 milljónir evra í lok rekstrarársins.

Heildartekjur Eimskip á fjórða ársfjórðungi rekstrarársins námu 175,2 milljónum evra en námu 168,9 milljónum evra á sama tímabili , sem er 3,7% tekjuaukning á milli ára. Á árinu voru heildartekjur 718,9 milljónir evra en voru 680,3 milljónir evra á rekstrarárinu á undan, sem er 5,7% aukning milli ára. Aukning tekna á milli ára er vegna mikillar aukningar á flutningum í Eystrasaltinu og vegna starfsemi í Asíu sem kom ný inn á árinu 2008.

Þess ber að geta að rekstrarárinu lauk þann 31. ágúst sl og því ekki um að ræða uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung árið 2008, eftir að kreppan reið yfir íslenskt sem alþjóðlegt samfélag.  

Rekstrargjöld á fjórða ársfjórðungi voru 171,1 milljónir evra samanborið við 149,6 milljónir evra á sama tímabili rekstrarárið á undan og hafa hækkað um 14,3% á milli ára. Hlutfall kostnaðar af tekjum er 97,7% í samanburði við 88,6% á fjórða ársfjórðungi 2007. Á árinu 2008 voru rekstrargjöld 662,8 milljónir evra en voru 619 milljónir evra rekstrarárið á undan, sem er 92,2% af heildartekjum.

Hagnaður félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 4,1 milljónir evra á fjórðungnum (4F 2007: 19,3 milljónir evra). Á árinu 2008 var EBITDA 56 milljónir evra (2007: 61,3 milljónir evra). EBITDA framlegðin var 2,3% í fjórðungnum (4F 2007: 11,4%) og var 7,8% á árinu í heild (2007: 9%).

Tap fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) var 106,4 milljónir evra í fjórðungnum (4F 2007: hagnaður 9,0 milljónir evra). Á árinu 2008 var EBIT neikvætt um 83,4 milljónir evra.

Fjármagnsgjöld námu 21,9 milljónum evra á fjórðungnum (4F 2007: 28,0 milljónir evra) og er stærsti kostnaðarliðurinn vaxtakostnaður af lánum félagsins sem nam 22,0 milljónum evra á tímabilinu (3F 2008: 19,1 milljónir evra). Á árinu námu fjármagnssgjöld 97,4 milljónum evra (2007: 41,1 milljónir evra). Gengishagnaður í fjórðungnum nam 2,0 milljónum evra samanborið við 4,3 milljóna gengistap á þriðja ársfjórðungi ársins.

 

Ábyrgð vegna XL Leisure 226,7 milljónir evra

Eins og fram hefur komið er kæligeymslustarfsemi félagsins í Norður Ameríku í söluferli og færist nú meðal aflagðrar starfsemi, samkvæmt tilkynningu Eimskipafélagsins. Tap af aflagðri starfsemi var 356 milljónir evra í fjórðungnum og 466,2 milljónum evra á árinu í heild. Ábyrgð félagsins vegna XL Leisure Group að fjárhæð 226,7 milljónir evra er færð til gjalda.

Tap af kæligeymslustarfsemi Innovate í Bretlandi nam 72,1 milljónum evra. Virðisrýrnun vegna frystigeymslustarfsemi í Hollandi nemur 34,5 milljónum evra, en sú starfsemi er í sölumeðferð. Tap af frystigeymslustarfsemi nam 107,0 milljónum evra, sem skýrist að miklum hluta til af háum fjármagnskostnaði, samkvæmt tilkynningu.

Unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu með innlendum og erlendum ráðgjöfum. „Skuldsetning félagsins og neikvætt eigið fé kallar á aðgerðir sem félagið hefur markvisst unnið að síðustu mánuði.  Mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu er að tryggja söluferli frystigeymslustarfsemi félagsins í Norður Ameríku, en sú sala mun létta verulega á skuldsetningu félagsins.  Gert er ráð fyrir að söluferlinu ljúki í febrúar eða mars og að því loknu verður farið í frekari samningaviðræður við lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu til að tryggja reksturinn til framtíðar.

Unnið er að samkomulagi við lánveitendur félagsins um frestun afborgana og vaxta til að tryggja rekstrarhæfi félagsins fram yfir söluna eins og áður hefur verið tilkynnt. Þær viðræður hafa gengið vel og helstu lánveitendur sýnt ferlinu góðan skilning. 

Eimskip hefur þegar náð samkomulagi við mikinn meirihluta skuldabréfaeigenda um frestun vaxtagreiðslna og afborgana. Félagið hefur einnig náð samkomulagi við hluta af öðrum innlendum og erlendum lánveitendum um frestun vaxtagreiðslna og afborgana, eins og áður hefur verið tilkynnt. Félagið er jafnframt í viðræðum við aðra lánveitendur og hafa viðbrögð lánveitenda almennt verið jákvæð," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK