Alkul í bílasölu

Allt frosið Efnahagslíf landsmanna er í frosti og ekki mjög …
Allt frosið Efnahagslíf landsmanna er í frosti og ekki mjög bjart framundan. Bílarnir og vinnuvélarnar á hafnarbakkanum bera skýran vott um það. mbl.is/RAX

Tæplega 4.000 nýir bílar standa óseldir við Sundahöfn en gríðarlegur samdráttur er í bílasölu. Samdrátturinn reyndist sem kunnugt er Heklu ofviða, en fyrirtækið var tekið yfir af Kaupþingi á þriðjudaginn sl. Rekstrinum verður þó haldið áfram í óbreyttri mynd í einhvern tíma.

Forsvarsmenn stórra bílasala eru misbjartsýnir á framtíðarhorfur. Flestir stórir bílasalar sýndu fyrirhyggju og drógu úr pöntunum þegar gæta fór minnkandi sölu á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. „Það er hæpið að alhæfa um að allir séu í nauðvörn en það er auðvitað rétt að eftir hrunið er samdrátturinn í sölu [nýrra bíla] 90-95%,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. Hann segir að fyrirtækin hafi brugðist misjafnlega við ástandinu.

Aðeins 170 nýir fólksbílar voru nýskráðir hér á landi í janúar. 98% þeirra voru seldir úr landi samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu, en bílasölurnar sem seldu bíla erlendis neyddust til þess að nýskrá suma bílana hér á landi fyrst áður en þeir voru seldir út.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, segir að samdráttur milli áranna 2007-2008 hafi verið í kringum 40% hjá Toyota. Sala á nýjum bílum í janúar og febrúar 2008 hafi verið „alveg frábær“ og vill hann meina að ekki sé hægt að bera saman söluna í janúar á þessu ári og janúar í fyrra og draga víðtækar ályktanir á muninum þar á milli. Úlfar segir að allt síðasta ár hafi verið dregið stíft úr kostnaði, auglýsingar og annar rekstrarkostnaður hafi verið skorinn niður. Einnig tók starfsfólk á sig 10% launalækkun og starfsfólk á tímakaupi tók á sig minnkað starfshlutfall. Toyota eigi um 500 nýja bíla á lager. „Okkur mun takast að sigla í gegnum þetta en þetta verður líklegasta erfiðasta árið [í langan tíma].“

Í lok mars mun B&L flytja starfsemi sína frá Grjóthálsi niður á Sævarhöfða, þar sem Ingvar Helgason er til húsa, en bílasölurnar eru í eigu sama fyrirtækis, Sævarhöfða ehf. „Það væri mjög óábyrgt að greiða háa leigu upp á Grjóthálsi meðan samdráttur er í sölu,“ segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri hjá Ingvari Helgasyni og B&L. Saman eiga félögin um 500 nýja bíla á lager. „Við erum búnir að sameina allt sem hægt er og höfum fækkað starfsmönnum sameinaðs félags um helming.“

Pálmi Blængsson, markaðsstjóri Suzuki-bíla, segir að staðan hjá fyrirtækinu sé ágæt. Fyrirtækið eigi í kringum 200 nýja bíla á lager. „Það hefur þurft að skera niður auglýsingakostnað en þetta er fámennt fyrirtæki,“ segir Pálmi, en tólf starfsmenn starfa hjá Suzuki-bílum. Fyrirtækið hafi einnig stöðvað allar pantanir. Hann segir að horfurnar séu almennt góðar, þrátt fyrir samdrátt. „Við erum ekki í neinni hættu,“ segir Pálmi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK