Félög skráð á Tortola-eyju fluttu peninga frá Íslandi

Þau félög frá Tortola-eyju sem skráðu sig hérlendis til að stunda bankaviðskipti áttu engar peningalegar eignir á Íslandi í árslok 2007. Árið áður höfðu félög skráð á Tortola átt rúma fimm milljarða króna á Íslandi sem yfirgáfu landið árið 2007. Því virðast bankaviðskiptin fyrst og síðast hafa snúist um að færa fé frá Íslandi.

Á sama tíma áttu íslenskir aðilar um 8,2 milljarða króna á Tortola-eyju og hinum Bresku Jómfrúaeyjunum. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabanka Íslands um beinar fjármunaeignir útlendinga á Íslandi.

Líkt og Morgunblaðið sagði frá í síðustu viku eru 136 félög frá Tortola-eyju með íslenska kennitölu til að stunda viðskipti á Íslandi. Meira en hundrað félög voru skráð hérlendis fyrir árslok 2007 en samt sem áður áttu þau engar peningalegar eignir á Íslandi á þeim tíma.

Heimildir Morgunblaðsins herma að íslenskir aðilar hafi stofnað mörg hundruð félög á Tortola-eyjum síðastliðin ár. Þorri þeirra var búinn til af dótturfélögum íslensku bankanna í Lúxemborg og þeir fjármunir sem eru inni í þeim félögum eru ekki taldir með þegar talað er um beinar peningalegar eignir. Því eru allar líkur á því að heildareignir íslenskra aðila á Tortola-eyju séu mun meiri en kemur fram í tölum Seðlabankans.

Peningalegar eignir erlendra aðila á Íslandi námu samtals 749 milljörðum króna í árslok 2007 og 82,5 prósent af þeim komu frá fjárfestum í Hollandi, Lúxemborg og Belgíu, eða 618,4 milljarðar króna.

Flestir fjárfestanna eru eignarhaldsfélög í Hollandi og Lúxemborg sem eru í eigu íslenskra aðila og bera nöfn á borð við Exista B.V., Egla Invest B.V., FL Group Holding Netherlands B.V., Oddaflug B.V., Gaumur Holding S.A. og Samson Global Holding S.a.r.l.

Þegar talað er um beina eign á fjármunum hérlendis er átt við að viðkomandi eignarhaldsfélag eigi beint í íslensku fyrirtæki, ekki í gegnum annað eignarhaldsfélag. Mörg eignarhaldsfélög á Íslandi sem hafa átt í stórum skráðum félögum á Íslandi hafa verið í eigu erlendra félaga, sem aftur hafa verið í eigu íslenskra aðila. Slík eign er ekki inni í ofangreindum tölum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK