Sendinefnd IMF kemur í næstu viku

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) undir forystu Poul Thomsens mun koma í næstu viku í fjögurra til fimm daga heimsókn til Íslands. Tilgangur heimsóknarinnar er að kanna hvort framvinda efnahagsmála hér fullnægi þeim skilyrðum sem sett voru fyrir 2,1 milljarðs Bandaríkjadala lánveitingu sjóðsins til landsins.

Fyrsti hluti lánsins, alls 827 milljónir Bandaríkjadala, var greiddur út strax þegar lánið var samþykkt í nóvember síðastliðnum en afgangurinn verður greiddur út ársfjórðungslega í átta jafnstórum greiðslum á tveggja ára tímabil aðgerðaráætlunar stjórnvalda og IMF. Greiðslurnar eru háðar því að framvinda mála hér sé í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í áætluninni. Heimsókn sendinefndarinnar í næstu viku er liður í fyrstu ársfjórðungslegu endurskoðuninni og þá mati á því hvort skilyrðum fyrir næstu greiðslu að fjárhæð 155 m.dala sé fullnægt, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Glitnis.

„Mat á skilvirkni hamla á fjármagnsflutningum milli landa og áform um að aflétta þeim smám saman verður hluti af þessari fyrstu endurskoðun áætlunarinnar.

Í skýrslu sendinefndar sjóðsins sem kom hingað í desember segir að slík tímaáætlun mun ráðast af því hvernig til tekst með framkvæmd skilyrða á borð við stöðugleika gengisins, horfur um greiðslujöfnuð (ekki hvað síst horfurnar fyrir nýtt innflæði fjármagns) og stöðu gjaldeyrisforðans.

Ekki verður annað séð en að sjóðurinn ætti að vera ánægður með þróun gengis krónunnar. Bæði hefur hún styrkst og stöðugleiki aukist á gjaldeyrismarkaði. Tölur fyrir greiðslujöfnuð á 3. ársfjórðungi í fyrra sýna meiri viðskiptahalla en áætlað var en stafar það að miklu leyti af óvæntri þróun á þáttatekjureikningi í tengslum við umrótið í bankageiranum og mun hafa frekar lítil áhrif á áframhaldandi flæðistærðir. Þá hefur afar lítið af gjaldeyrisforðanum verið nýttur í inngrip á gjaldeyrismarkaðinum og hann þannig haldist nokkuð stöðugur í erlendri mynt eftir lánafyrirgreiðslu sjóðsins," að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis. Auk þess að skoða gjaldeyrishöftin mun kastljós þessarar fyrstu endurskoðunar beinast að ríkisfjármálunum. Mun ljósið þar beinast að áætlun í ríkisfjármálum til meðallangs tíma sem miða þá að því að reka ríkissjóð með nægjanlegum afgangi til að tryggja viðunandi niðurgreiðslu skulda á næstu árum.

Von er á nýju mati fjármálaráðuneytisins á hreinni skuldastöðu ríkissjóðs en síðasta mat ráðuneytisins sem birt var í lok janúar síðastliðinn var að nettóstaða ríkissjóðs (skuldir að frádregnum eignum) myndi fara úr því að vera neikvæð upp á ríflega 8 ma. kr. í lok síðastliðins árs í að vera neikvæð um 563 ma.kr. í lok þessa árs. IMF telur að kostnaður ríkissjóðs af hruni bankanna verði líklega lægri en talið var í upphafi, að því er segir í Morgunkorni Glitnis. „Til þess að auka ekki við niðursveifluna sem framundan er á árinu mun þó ekki koma til verulegs niðurskurðar í ríkisfjármálum fyrr en á næstu árum en sjálfvirkri sveiflujöfnun verður beitt á þessu ári. Í því felst að halla verður leyft að myndast í þeirri niðursveiflu sem framundan er á árinu og er fjárlagahalli ríkissjóðs áætlaður 150 ma.kr. í ár.

Annað verður upp á teningnum á næsta ári en þá þarf ríkisjóður að herða aðhald opinberra fjármála og búa í haginn fyrir niðurgreiðslu skulda. Áætlun stjórnvalda um hvar og hvernig þetta aðhald verður hert þarf að vera tilbúin í endurskoðuninni sem fer fram í sumar en þarf að vera komin vel á veg núna í febrúar. Ljóst er að verulega þarf að skera niður í ríkisfjármálunum en skattahækkanir eru einnig líklegar þó að þær séu ekki hentugar við núverandi aðstæður."

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti í nóvember þau skilyrði að endurfjármögnun bankanna ætti að vera að fullu lokið nú við fyrstu endurskoðunina í febrúar. Í því felst að búið verði að meta allar skuldir og eignir bankanna og setja saman nýjan efnahagsreikning nýju bankanna. Ljóst er að þessi vinna hefur dregist nokkuð. Einnig skuli mati á orsökum og afleiðingum bankahrunsins, sem unnið er af hlutlausri nefnd, vera lokið og skýrsla um helstu niðurstöður matsins vera komin til stjórnvalda og almennings. Auk þessarar endurskoðunar á FME að vera búið að fara yfir fimm ára viðskiptaáætlanir nýju bankanna og samþykkja þær. Óljóst er á þessari stundu hvort þessari vinnu verður lokið á tilsettum tíma.

IMF opnar skrifstofu hér á landi

Með sendinefnd IMF verður væntanlega í för Franek Rozwadowski sem skipaður hefur verið fulltrúi IMF á íslandi og verður starfandi á skrifstofu IMF á Íslandi sem verður sett á fót fljótlega í kjölfar heimsóknarinnar.

Reikna má með að IMF verði með skrifstofu hér á landi þann tíma sem aðgerðaáætlunin er í gildi.

Rozwadowski mun fylgjast með framþróun efnahagsáætlunarinnar og vera í beinum tengslum við stjórnvöld og hagsmunaaðila auk þess að vera tengiliður íslenskra stjórnvalda við höfuðstjórn IMF í Washington, samkvæmt greiningu Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK