Fréttaskýring: Milljarðar úr sjóðum rétt fyrir fall

Skilanefnd hefur höfðað mál í Bretlandi til að hnekkja ákvörðun …
Skilanefnd hefur höfðað mál í Bretlandi til að hnekkja ákvörðun FSA. Mbl.is / Golli

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali í Kastljósinu í gærkvöldi að hann teldi ekki útilokað að hryðjuverkalögin sem bresk stjórnvöld settu á Landsbankann og Íslendinga skýrist að einhverju leyti af hræðslu þeirra við að peningar yrðu fluttir úr útibúi Landsbankans í Bretlandi, eins og þeir töldu að gert hefði verið í Kaupþingi.

Í máli Davíðs kom fram að breska fjármálaeftirlitið (FSA) hefði fyrst talið að 400 milljónir punda hefðu verið færðar úr dótturfélagi Kaupþings (Kaupþing Singer & Friedlander bankanum) síðan 800 milljónir og enn hærri fjárhæðir. Sem kunnugt er réðst FSA inn í Kaupþing Singer & Friedlander bankann hinn 8. október.

Viljugir að gera samninga rétt fyrir hrunið
Ekki liggur fyrir hvaða upphæðir það eru sem Davíð vitnar til í viðtalinu að FSA hafi haft áhyggjur af. En eins og Morgunblaðið hefur greint frá undanfarnar vikur þá hefur það vakið athygli hversu viljugir stjórnendur Kaupþings voru að gera samninga vikurnar fyrir fall bankans sem fólu í sér mikið útstreymi á lausafé bankans í ágúst og september 2008. Þeir samningar voru á endanum allir fjármagnaðir af Kaupþingi sem hafði á endanum reitt fram 500 milljónir evra vegna þeirra. Síðasta greiðslan fór úr bankanum mánudaginn 6. október þegar neyðarlögin voru samþykkt á Alþingi.

Þessar 500 milljónir evra voru lánaðar til að standa við skilyrði tveggja samninga. Á sama tíma hafði öðrum viðskiptavini Kaupþings í London, Robert Tchenguiz, verið lánaðar 110 milljónir punda. Í lok júní 2008 hafði félag hans, Oscatello Investment Ltd, fengið 45 milljónir punda lánaðar.

Þessu til viðbótar fékk sjeik Al-Thani 50 milljónir dollara að láni stuttu áður en að Kaupþing féll. Á sama tíma hafði bankinn verið að kaupa skuldabréf á almennum markaði, sem bankinn hafði sjálfur gefið út, fyrir 180 milljónir evra.

Séu þessar upphæðir lagðar saman má áætla að útstreymi peninga úr sjóðum Kaupþings hafi verið um 140 milljarðar króna vikurnar áður en stjórnendur bankans afhentu Fjármálaeftirlitinu lykilinn að skrifstofunum um miðnætti miðvikudaginn 8. október.

Stjórnendur Kaupþings hafa sagt allar þessar færslur eðlilegar. Hefur það verið gagnrýnt að hafi verið ábyrgðarhluti yfirstjórnar Kaupþings að dæla út lausu fé úr sjóðum bankans þegar hrikti í stoðum fjármálakerfis heimsins.

Lánveitingar til Roberts Tchenguiz
Eins og fram hefur komið reyndust lánveitingar Kaupþings til Roberts Tchenguiz mun hærri en áður var talið. Bankinn lánaði eignarhaldsfélaginu Oscatello Investments Ltd, sem er í eigu Robert Tchenguiz og er skráð á Bresku Jómfrúreyjum, 643 milljónir sterlingspunda tryggt með veði í hlutabréfum, m.a í Exista. Um er að ræða „yfirdrátt í erlendum gjaldeyri á viðskiptareikningi“, eins og það er orðað í stefnu sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Oscatello. Þess ber að geta að Tchenguiz er náinn viðskiptafélagi Ágústs og Lýðs Guðmundssona, sem voru stærstu eigendur Kaupþings gegnum eignarhaldsfélagið Exista, en Tchenguiz situr í stjórn Exista.

Síðar kom í ljós að umrætt 643 milljóna punda lán var samsett úr mörgum lánveitingum til Tchenguiz í samsettu láni [overdraft facility] og gengið var frá því í desember 2007. Undirliggjandi veð voru í breskum kráar- og matvörukeðjum. Meðal þeirra eru Sainsbury's, Mitchell and Butler og Green King. Lánið var sett saman, að sögn framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi á þeim tíma, til þess að fá betri yfirsýn yfir til lánveitingar til hans.  Það hafi verið krafa Tchenguiz að lánið yrði veitt til aflandsfélags hans, þ.e. Oscatello. Tchenguiz sagði sjálfur í samtali við breska dagblaðið Guardian eftir að Morgunblaðið fjallaði um málshöfðun gegn Oscatello að Oscatello væri ekki lengur í sinni eigu og væri stjórnað af Kaupþingi.

Ekki vitað hvers vegna farið var inn í S&F
Breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefur ekki gefið út opinberlega hvað það var nákvæmlega sem varð til þess að eftirlitið fór inn í Kaupþing Singer & Friedlander hinn 8. október í fyrra. Hins vegar sagði Gordon Brown í viðtali á Sky fréttastofunni á þessum tíma að Bretar hefðu haft áhyggjur af stórum millifærslum frá Lundúnum til Reykjavíkur. Ein af ástæðum þess að skilanefnd Kaupþings hefur höfðað mál í Bretlandi til þess að reyna að hnekkja ákvörðun FSA er einmitt að komast til botns í því hvers vegna farið var inn í Singer & Friedlander. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings var það stórt atriði hjá Kaupþingi að breskur dómstóll endurskoði ákvörðun FSA til þess að fá upplýsingarnar sem ákvörðun FSA grundvallaðist á. Beiðnin hefur verið lögð fram og er beðið eftir greinargerð FSA.

Robert Tchenguiz
Robert Tchenguiz Reuters
Ólafur Ólafsson, ásamt meðlimi Al-Thani fjölskyldunnar og öðrum vinum í …
Ólafur Ólafsson, ásamt meðlimi Al-Thani fjölskyldunnar og öðrum vinum í Flatey síðasta sumar. Ljósmynd/Hanna Lilja
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK