Fjöldaflótti frá Kaupþingi?

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Nýja Kaupþings
Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Nýja Kaupþings Mbl.is / Golli

Tveir starfsmenn Nýja Kaupþings til viðbótar hafa sagt störfum sínum lausum, þeir Hannes Frímann Hrólfsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar- og markaðsviðskipta og Frosti Reyr Rúnarsson, forstöðumaður verðbréfamiðlunar.

„Er þetta ekki ágætis tími til að breyta til og láta aðra öfluga einstaklinga taka við,“ segir Frosti Reyr. Aðspurður segist Frosti ekki vera búinn að ráða sig annað.

Hannes Frímann Hrólfsson segir að það sé engin sérstök ástæða fyrir starfslokum. „Ég ákvað að taka stefnuna á ný mið og ný tækifæri,“ segir hann. „Maður er búinn að velta þessu fyrir sér í einhvern tíma en svo var endanleg ákvörðun tekin á síðustu dögum,“ segir Hannes. 

Hannes og Frosti segja að uppsagnir sínar tengist ekki uppsögnum þriggja starfsmanna áhættustýringar frá því fyrr í morgun. Þeir segja jafnframt að uppsagnir sínar hafi verið gerðar í bróðerni og sátt við Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra.  

Gjörbreytt umhverfi
„Það er alveg ljóst að markaðir hér á landi hafa gjörbreyst og innihald þessara starfa einnig,“ segir Finnur Sveinbjörnsson. „Varðandi áhættustýringuna, eftir að bankinn var ekki lengur alþjóðlegur breyttist umfang og eðli áhættustýringar og forsendur þessara manna þar af leiðandi líka. Ég get því vel skilið að þeir hafi hugsað sinn gang og vilji takast á við annars konar verkefni. Þeir ákveða að núna sé tími til að breyta til en þeir hafa allir verið lengi hjá bankanum. Þetta er allt saman í góðri sátt,“ segir Finnur. Aðspurður hvort það sé að eiga sér stað fjöldaflótti frá bankanum segist Finnur ekki hafa heyrt af frekari uppsögnum. „Framtíðin er háð mikilli óvíssu og þetta er gjörbreytt umhverfi sem við vinnum í.“  

Birgir Örn Arnarson, framkvæmdastjóri áhættustýringar, Óskar Haraldsson og Hrafnkell Kárason sögðu störfum sínum lausum fyrr í morgun en þeir þrír eru allir með doktorspróf í verkfræði og störfuðu á áhættustýringarsviði Nýja Kaupþings.

Kaupþing
Kaupþing mbl.is / Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK