Minnsta velta í 14 ár

Þær breytingar sem orðið hafa á fjármálamörkuðum hér á landi á undanförnum mánuðum koma glögglega í ljós á millibankamarkaði með gjaldeyri. Veltan á millibankamarkaði er nú ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.  Tvo fyrstu mánuði ársins var velta á millibankamarkaði tæpir 4 milljarðir kr. í hvorum mánuði en leita þarf allt aftur til ársins 1995 til að finna viðlíka veltu í einum mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Úr 550 milljörðum í 4 milljarða

Í febrúar nam velta með gjaldeyri á millibankamarkaði rétt tæpum 4 milljörðum króna  en í febrúar fyrir ári síðan var veltan 550 milljarðar króna.  Taka skal fram að gjaldeyrisviðskipti eru þó öllu meiri en þessar tölur benda til þar sem verulegur hluti þeirra fer ekki í gegnum millibankamarkað og eru því ekki inn í þessum tölum.

Til vitnis um þau hamskipti sem orðið hafa á gjaldeyrismarkaði þá var veltan í febrúarmánuði síðastliðnum jafnmikil og hún var á meðaldegi á millibankamarkaði árið 2005. Allt frá árinu 2005 hefur velta á millibankamarkaði numið hundruðum milljarða í hverjum mánuði. Á síðasta ári fór veltan þrisvar sinnum yfir 1.000 ma.kr. innan eins mánaðar en það gerðist í mars, júlí og rétt áður en bankahrunið skall á í september.

Sú breyting sem nú er orðin á veltutölunum er raunar í samræmi við það mat margra að aðeins séu um 5-10% af gjaldeyrisviðskiptum á fjármálamörkuðum heims tengd verslun með vöru og þjónustu. Núverandi gjaldeyrismarkaður á Íslandi er einmitt takmarkaður við þess konar viðskipti," að því er segir í Morgunkorni.

Dagsveltan 262 milljónir króna

Seðlabankinn hefur verið umfangsmikill á gjaldeyrismarkaði frá bankahruninu í haust, segir í Morgunkorni.

„ Eins og kunnugt er lögðust gjaldeyrisviðskipti nánast alveg af um nokkurra daga skeið í október en í kjölfarið tók uppboðsmarkaður Seðlabankans við um nokkra vikna hríð og var Seðlabankinn þá allsráðandi á gjaldeyrismarkaði. Millibankamarkaður með gjaldeyri var svo endurreistur á nýjan leik þann 4.desember síðastliðinn en síðan þá hefur dagsvelta á millibankamarkaði verið um 262 m. kr að meðaltali. Samtals hefur veltan á millibankamarkaði verið tæplega 16 ma. kr frá því að hann var settur á fót að nýju þann 4. desember síðastliðinn.

Seðlabankinn hefur staðið að baki um það bil þriðjungs af þeirri veltu. Fyrir bankahrunið var Seðlabankinn afar umsvifalítill á gjaldeyrismarkaði en allt frá árinu 2004 og þar til bankahrunið skall á voru umsvif Seðlabankans innan við 1% af heildarveltunni á millibankamarkaði," samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK