Hálft ár liðið frá því kreppan skall á

Starfsmenn Lehman Brothers ganga út úr bankanum í New York …
Starfsmenn Lehman Brothers ganga út úr bankanum í New York eftir að hann varð gjaldþrota. Reuters

Þótt segja megi með rökum að núverandi fjármálakreppa hafi byrjað um mitt ár 2007 þegar undirmálslán á bandarískum fasteignamarkaði birtust skyndilega í fréttum, má einnig segja með rökum að kreppan hafi skollið á fyrir alvöru fyrir réttu hálfu ári, 15. september 2008 þegar bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers varð gjaldþrota.

„Því má e.t.v. halda fram nú að með hruni Lehman Brothers hafi örlög íslensku bankanna verið endanlega ráðin. Ekkert hefði getað bjargað þeim þegar þar var komið. Sala eigna varð nánast ómöguleg vegna gríðarlegrar áhættufælni og lausafjárþrenginga," sagði Ingimundur Friðriksson, þáverandi seðlabankastjóri, m.a. í erindi sem birt var á vef Seðlabankans í febrúar sl.

Alþjóðagreiðslubankinn í Sviss sagði í skýrslu, að við gjaldþrot Lehman Brothers hafi lána- og peningamarkaðir hafi frosið að mestu, hlutabréfaverð hrapað, aðgangur banka og annarra fjármálafyrirtækja að fjármagni þrengst og eiginfjárstaða rýrnað vegna mikilla tapa. Lehman hrunið hefði leitt til þess að tiltrú hvarf að mestu.

„Það jákvæða við Lehman-gjaldþrotið var, að þá rann loks upp fyrir stjórnmálamönnum hvaða alvara var á ferðum," hefur norski viðskiptavefurinn E24 eftir Øystein Dørum, sérfræðingi hjá DnB Nor Markets.

„Hefðu þeir dælt peningum inn í bankann og Lehman hefði getað haldið áfram starfsemi hefði áfallið á peningamarkaðnum ekki orðið jafn mikið og raun  bar vitni. Vextir hefðu ekki verið lækkaðir jafn mikið og aðrir bankar, sem áttu í vandræðum, hefðu ekki fengið jafn mikinn stuðning." 

Vefurinn hefur eftir Steinar Juel  hjá Nordea, að þótt bandarísk stjórnvöld hefðu bjargað Lehman hefði það ekki komið í veg fyrir fjármálakreppuna „en ef til vill áfallið sem við urðum fyrir. Að sumu leyti væri staðan ekki eins neikvæð nú." Hins vegar sé allt eins líklegt, að samdráttarskeiðið hefði orðið mun lengra.

E24 fjallar síðan um þau lönd sem hafa farið verst út úr fjármálakreppunni. Þar eru Bandaríkin í 1. sæti en þarlend stjórnvöld hafa varið gríðarlegum fjármunum til að styðja fjármálafyrirtæki og reyna að örva efnahagslífið. Ísland er í 2. sæti og er vitnað til sjónvarpsræði Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í október. Í þriðja sæti er Bretland.

Umfjöllun E24

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK