Ekki tímabært að draga úr höftum

Svein Harald Øygard seðlabankastjóri
Svein Harald Øygard seðlabankastjóri mbl.is/Kristinn

Ekki er hægt að draga úr gjaldeyrishöftum enn sem komið er að sögn seðlabankastjóra Svein Harald Øygard. Hann segir veiking krónunnar að undanförnu sé að mestu rakin til tímabundinna þátta, bæði vegna vaxtagreiðslna og leka á gjaldeyrishöftum. Telur peningamálastefnunefndin að krónan muni ná sér á strik á ný. Næsta yfirlýsing peningamálastefnunefndar Seðlabankans verður birt þann 8. maí nk.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að ekki sé hægt að lofa því að stýrivextir verði lækkaðir þann 8. maí en ef hratt dregur úr verðbólgu þá aukast líkur á slíkri ákvörðun. Þetta kom fram á kynningarfundi bankans í dag á ákvörðun peningastefnumálanefndar um að lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands úr 17% í 15,5%.

Ingólfur Bender, yfirmaður greiningar Íslandsbanka, spurði á fundinum hvort líkur séu á verðhjöðnun en því er spáð að verðbólga nálgist 0% í mars á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum þá er ekki útilokað að verðhjöðnum bresti á. Arnór tók hins vegar fram að mjög ólíklegt sé að verðhjöðnun geti náð því stigi hér að Seðlabankinn geti ekki unnið bug á henni með vaxtalækkunum. Hann segir að verðtryggingin og sú staðreynd að stór hluti skuldbindinga fyrirtækja og heimila að einhverju leyti sé gengisbundinn dragi einnig úr líkum á að verðhjöðnun valdi skaða hér. 

Gengi krónu hefur lækkað um tæplega 9% frá 19. mars. Lækkun krónunnar virðist mega rekja til tímabundinna þátta, t.d. tiltölulega mikilla árstíðarbundinna vaxtagreiðslna af krónuskuldabréfum og innstæðum í eigu erlendra aðila. Þótt afgangur hafi verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ríkir enn mikil óvissa um viðskiptajöfnuðinn í heild. Að auki eru vísbendingar um að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin. Stjórnvöld hafa brugðist við því með breytingu á viðeigandi lögum.

Peningastefnunefndin telur ólíklegt að ákvörðun hennar um að lækka stýrivexti bankans um eina prósentu hinn 19. mars hafi haft veruleg áhrif á gengi krónunnar. Sá vaxtamunur sem er til staðar milli krónunnar og helstu gjaldmiðla ætti að gefa svigrúm til áframhaldandi hægfara slökunar peningalegs aðhalds án þess að það grafi undan stöðugleika krónunnar. Frá lokum síðasta árs hefur munur innlendra stýrivaxta og stýrivaxta á evrusvæðinu aukist lítillega.

Mæling á þriggja mánaða verðbólgu sýni að mjög hratt hefur dregið úr verðbólgu að undanförnu. Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,6% milli mánaða í mars. Verðbólga nam 15,2% mæld á tólf mánaða tímabili og hafði minnkað úr 18,6% í janúar. Hjöðnun verðbólgunnar tengist snörpum samdrætti innlendrar eftirspurnar og hagstæðri gengisþróun, að því er fram kom á kynningarfundi Seðlabankans í dag.

Seðlabankastjóri sagði á fundinum að peningamálastefnunefnd tæki sjálf allar stýrivaxtaákvarðanir. Hins vegar væri haft samráð og þegin ráð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Hann segir að fundargerð peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar nú verði birt eftir tvær vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK