Stýrivextir lækka um 2,5 prósentur

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 2,5 prósentur í 13,0%. Vextir daglána lækka einnig um 2,5 prósentur en aðrir vextir Seðlabankans lækka um þrjár prósentur.

Klukkan 11 verða færð rök fyrir vaxtaákvörðuninni og efni Peningamála kynnt á fundi með blaðamönnum, sérfræðingum ýmissa stofnana, háskóladeilda og samtaka í tilefni af ákvörðun peningastefnunefndar um að lækka stýrivexti um 2,5 prósentur.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa á skömmum tíma eða frá því í mars, lækkað vexti úr 18,0% niður í 13%. Það var þann 28. október í fyrra sem bankastjórn Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 6 prósentur í 18%.

Þrýst á myndarlega stýrivaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur verið undir miklum þrýstingi undanfarið um að lækka stýrivexti umtalsvert. Bæði frá hagsmunasamtökum atvinnulífsins sem og stjórnvöldum. Fyrr í vikunni sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra að við hljótum að sjá stýrivexti alveg niður í 2-3% fyrir árslok.  Allar forsendur væru til að fara mjög hratt niður með vextina.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir alla sammála um að nafnvextir þurfi að lækka. „Verðbólgutölur undanfarna mánuði hafa verið miklu lægri en þær voru þegar verðbólgan varð hvað mest síðastliðið haust eftir gengisfall krónunnar. Það gefur svigrúm til þess að nafnvextir lækki a.m.k. jafnhratt og verðbólgan. Ég á ekki von á öðru en að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi áfram þessu vaxtalækkunarferli,“ sagði hann. „Ég myndi fagna því ef þeir væru dálítið djarfir í sínum vaxtalækkunum.“

Í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands fyrir tveimur dögum kom fram að nauðsynlegt sé að vextir verði að hámarki 4% hærri en á evrusvæðinu. Þar eru vextir nú 1,25% en í dag mun Seðlabanki Evrópu sem og Englandsbanki og Seðlabanki Danmerkur kynna stýrivexti.

Jón Steinþór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins,  segir í leiðara Íslensks iðnaðar í gær að búast megi við myndarlegri lækkun vaxta, færi þá að minnsta kosti niður í 10% í stað gildandi 15,5% stýrivaxta sem leiða til yfir 20% vaxtabyrðar af skuldbindingum heimila og fyrirtækja

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, hafa báðir tjáð sig um háa vexti hér á landi og telja að lækka þurfi vexti verulega svo fyrirtæki geti þrifist í landinu.

 Greining Íslandsbanka spáði því að stýrivextir Seðlabanka Íslands yrðu lækkaðir úr 15,5% í 14% í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK