Fréttaskýring: Már sterkur í stól seðlabankastjóra

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Ekki er að finna mikla andstöðu við það innan stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, að Már Guðmundsson verði næsti bankastjóri Seðlabanka Íslands.

Þegar tilkynnt var hverjir sóttu um kom fram að ráðgert væri að skipa í embættið fyrir júní. Það er því útlit fyrir að nýr seðlabankastjóri taki við formennsku í peningastefnunefndinni þegar ákvörðun um stýrivexti verður tekin 4. júní næstkomandi.

Það er einkum þrennt sem sagt er vinna með Má í þessu umsóknarferli. Hann þekkir vel til innan Seðlabankans, enda fyrrverandi aðalhagfræðingur bankans. Hann ber enga ábyrgð á ákvörðunum Seðlabankans í aðdraganda bankahrunsins vegna starfa sinna erlendis. Hann hefur alþjóðlega reynslu eftir að hafa verið aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans [BIS] í Basel í Sviss.

Hins vegar er Már sagður aðalhöfundur peningamálastefnunnar, sem margir segja að eigi sinn þátt í hruni hagkerfisins. Arnór Sighvatsson tók við sem aðalhagfræðingur og Þórarinn G. Pétursson var honum innan handar. Þessir þrír hagfræðingar lögðu grunninn að breytingu peningamálastefnunnar 2001.

Fólk í stjórnarflokkunum er meðvitað um þetta en telur samt ekki hægt að draga Má til ábyrgðar þar sem hann hefur verið svo lengi fjarverandi. Hins vegar telja fáir að það hefði einhverju breytt ef Már hefði verið á staðnum að fylgja stefnu sinni eftir.

Yngvi Örn Kristinsson er annar af átta umsækjendum sem kemur til greina í stól seðlabankastjóra.

Það er sagt vinna með Yngva að hann hefur stuðning innan Samfylkingarinnar, sérstaklega hjá forsætisráðherra. Það kemur til vegna þess að Yngvi vann með Jóhönnu þegar hún var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar við gerð húsbréfakerfisins. Pólitíska baklandið hans er því ágætt í þeim flokki þó að hann eigi fáa aðdáendur í hópi Vinstri grænna.

Yngvi Örn er bankamaður; var framkvæmdastjóri í Landsbanka Íslands og stýrir nú hagfræðideild bankans. Það er ekki vinsælt í dag. Sérstaklega í ljósi þess hversu illa Landsbankinn stóð þegar bankakerfið hrundi á Íslandi.

Aðrir í hópi umsækjenda, sem uppfylltu kröfur um menntun, eru: Arnór Sighvatsson hagfræðingur, Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Jóhann Rúnar Björgvinsson hagfræðingur, Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur, Tryggvi Pálsson hagfræðingur og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.

Helst hefur Þorvaldur Gylfason verið nefndur af þessum umsækjendum sem líklegur fulltrúi í stól seðlabankastjóra. Hins vegar höfðu fáir trú á að hann yrði valinn.

Yngvi Örn Kristinsson.
Yngvi Örn Kristinsson.
Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK