„Segir endurskoðendur hafa verndað stjórn FL"

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason

„Grunur minn um meint umboðssvik reyndist á rökum reistur. Bæði lögmenn og endurskoðendur FL Group reyndu að dylja þessar gjörðir,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi í FL Group og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, um rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á aðkomu FL Group að kaupunum á danska flugfélaginu Sterling. Verið er að rannsaka annars vegar hvort viðskiptin hafi brotið í bága við hlutafélagalög og hins vegar hvort kaup og sala á Sterling milli tengdra aðila séu mögulega umboðssvik.

Morgunblaðið skýrði frá því á fimmtudag að meðal þeirra gagna sem vísað hafi verið til efnahagsbrotadeildarinnar séu gögn sem staðfesta að Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður FL Group, hafi látið millifæra um þrjá milljarða króna inn á reikning í Kaupþingi í Lúxemborg vorið 2005. Þeir fjármunir hafi síðan verið notaðir af Fons, í eigu Pálma Haraldssonar, til að kaupa Sterling. FL Group var á þeim tíma almenningshlutafélag.

Vilhjálmur bar upp fyrirspurn um þessar millifærslur á hluthafafundi í FL Group haustið 2005 og á aðalfundi félagsins í mars 2006.

Vilhjálmur telur sennilegt að hluthafar í FL Group muni geta leitað réttar síns gagnvart þeim einstaklingum sem framkvæmdu þennan gjörning. „Ég tel að svo sé, sérstaklega ef það kemur í ljós að Hannes [Smárason], Pálmi [Haraldsson] og Jón Ásgeir [Jóhannesson] hafi með einhverjum hætti skipt á milli sín hagnaði af Sterling-viðskiptunum. Þá er þetta alveg borðliggjandi. Það voru þeir persónulega sem framkvæmdu þessar gjörðir.“

Voru að vernda stjórnina

Á síðari fundinum svaraði Jón S. Helgason, endurskoðandi frá KPMG sem skrifaði upp á ársreikninga FL Group, því til að stórar útborganir af reikningum félagsins hefðu verið kannaðar en að ekki hefðu fundist neinar greiðslur á þeim tíma sem Vilhjálmur spurði um. Heimildir Morgunblaðsins herma að Jón hafi spurst fyrir um umrædda millifærslu hjá Kaupþingi í Lúxemborg og um hvort upphæðin sem færð var á milli hefði verið hreyfð. Aðspurður vildi Jón hvorki játa því né neita að hann hefði haft vitneskju um millifærslur Hannesar.

Vilhjálmur segist ekki vera hissa á þeim viðbrögðum. „Þeir [endurskoðendur FL Group] voru að vernda stjórn félagsins. Þeir voru ekki að gæta hagsmuna hluthafa. Það voru hins vegar hluthafar sem kusu þá til að gæta hagsmuna sinna, meðal annars gagnvart stjórn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK