Vilja að kaup á Chrysler verði stöðvuð

Chryslerbílar á sölu í Toronto.
Chryslerbílar á sölu í Toronto. Reuters

Þrír lífeyris- og framkvæmdasjóðir í Indiana í Bandaríkjunum hafa farið fram á það við hæstarétt Bandaríkjanna, að hann stöðvi sölu á bílaframleiðandanum Chrysler til ítalska bílaframleiðandans Fiat.

Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku, að af sölunni gæti orðið. Lífeyrissjóðirnir hafa nú óskað eftir því að hæstiréttur setji lögbann á söluna svo þeim gefist tóm til að áfrýja málinu til réttarins.

Chrysler fékk gjaldþrotavernd í apríl og í kjölfarið náðust samningar um sölu á fyrirtækinu fyrir milligöngu bandarískra stjórnvalda. Samkvæmt samkomulaginu eignast Fiat 20% af Chrysler, 68% verða í eigu sjóðs stéttarfélaga og bandaríska og kanadíska ríkið eiga saman 12%. 

Lífeyrissjóðirnir þrír eru hins vegar andvígir sölunni og segja að með henni sé verið að hygla sumum kröfuhöfum Chrysler á kostnað annarra. Kröfur sjóðanna á Chrysler nema um 42 milljónum dala en alls skuldar fyrirtækið 6,9 milljarða dala. 

Verði ekki gengið formlega frá samningnum fyrir 15. júní getur Fiat hætt við. Fyrirtækið greiðir ekkert fyrir 20% hlutinn í Chrysler. 

Ruth Bader Ginsburg, hæstaréttardómari, er með málið til meðferðar en sjóðirnir óska eftir því að niðurstaða fáist í málið fyrir klukkan 21 að íslenskum tíma á mánudag. Ginsburg getur tekið ákvörðun ein eða kallað saman allan réttinn.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK