Exista afturkallar hlutafjáraukningu

Hlutafjáraukning í Exista hefur verið afturkölluð.
Hlutafjáraukning í Exista hefur verið afturkölluð. mbl.is/Kristinn

Exista hefur afturkallað tilkynningu um hlutafjáraukningu frá 8. desember síðastliðnum. Fyrirtækjaskrá hefur haft tilkynninguna til skoðunar frá því í lok maí. Verið var að athuga hvort hún stæðist lög um hlutafélög, en þar stendur orðrétt að „greiðsla hlutar má ekki nema minna virði en nafnverði hans." Það átti ekki við í ofangreindri hlutafjáraukningu.

Í tilkynningu Exista til Kauphallar kemur fram að „þrátt fyrir að Exista telji tilkynninguna eðlilega hefur félagið afturkallað hana til að eyða öllum efasemdum um réttmæti hennar og í samráði við fyrirtækjaskrá."

Greiddu 1/50 af nafnverði hluta

Forsaga málsins er sú að á hluthafafundi Exista þann 30. október 2008, nokkrum vikum eftir bankahrun, var ákveðið að breyta samþykktum félagsins með þeim hætti að heimilað væri að auka hlutafé um 50 milljarða króna að nafnvirði Í Kjölfarið var BBR ehf., félag í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona (aðaleiganda Exista), skráð fyrir hinu nýja hlutafé. Samkvæmt hlutafélagalögum hefði BBR ehf. átt að greiða 50 milljarða króna fyrir hið nýja hlutafé. Það gerði félagið hins vegar ekki, heldur var greitt með öllu hlutafé í öðru félagi, Kvakki ehf. Eigendur þess voru þeir sömu og eiga BBR ehf.

Hlutafé í Kvakki var aðeins einn milljarður króna að nafnvirði, eða einungis 1/50 af nafnverði hlutanna úi Exista sem verið var að „kaupa." Því var greiddur einn milljarður króna fyrir 50 milljarða hlut að nafnvirði. Hefði hlutafjáraukningin staðist hefðu bræðurnir Ágúst og Lýður eignast 78 prósent hlut í Exista strax að henni lokinni. Þeir gerðu síðan öðrum hluthöfum yfirtökutilboð þar sem þeir buðu tvo aura fyrir hvern hlut. Hluti annarra eigenda tóku tilboðinu og því stóð eignarhlutur bræðranna Ágústs og Lýðs í Exista í um 89 prósentum áður en að hlutafjáraukningin var afturkölluð á föstudag.

Hlutafjáraukning viðbragð við aðgerðum Nýja Kaupþings

Hlutafjáraukningin var á sínum tíma viðbragð við því að Nýji Kaupþing hafði leyst til sín eignarhlut bræðranna í hollenska félaginu Bakkabraedur Holding B.V. og eignast við það um 45 prósent hlut í Existu. Eftir hlutafjáraukningu þynntist hlutur Nýja Kaupþings niður í um 10,3 prósent. Þann hlut seldi bankinn síðan til BBR ehf. þegar yfirtökutilboð var gert.

Morgunblaðið fjallaði ítarlega um málið fyrir nokkrum vikum og beindi meðal annars fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins (FME) um það. Þar var meðal annars spurt hvort að umrædd hlutafjáraukning stangaðist mögulega á við lög. Í svari FME sagði að stofnunin hafi ekki eftirlit með lögum um hlutafélög. Það sé „einkum hlutverk hluthafa og stjórnar að fylgjast með því að starfsemi hlutafélags sé í samræmi við lög, reglur og samþykktir félagsins. Telji hluthafar umrædda hlutafjárhækkun hafa brotið í bága við hlutafélagalög geta þeir kært slíkt til lögreglu."

Kröfuhafar Existu vilja taka yfir stjórn félagsins

Kröfuhafar Existu vinna nú að því að taka yfir stjórn félagsins. Til stendur að óska eftir greiðslustöðvun fyrir það á næstunni. Rammasamkomulag þess efnis hefur þegar verið gert en beðið er formlegs samþykkis frá erlendum kröfuhöfum Existu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK