Jón Ásgeir: Stenst enga skoðun

Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi 1998 ehf., kallar ákvörðun skiptastjóranna „skrýtið …
Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi 1998 ehf., kallar ákvörðun skiptastjóranna „skrýtið útspil.“ mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi 1998 ehf., hafnar alfarið þeirri ákvörðun skiptastjóra þrotabús Baugs Group að rifta sölu á Högum til 1998 ehf.

Eins og mbl.is greindi frá í dag var sú ákvörðun kynnt fyrir kröfuhöfum Baugs Group í dag á fundi með skiptastjórum að rifta sölunni á Högum. Riftun er lagalega tæk þar sem salan átti sér stað skemur en tólf mánuðum fyrir svokallaðan frestsdag, þ.e áður en Baugur Group leitaði fyrst eftir heimild til greiðslustöðvunar.

Skiptastjórar þrotabúsins eru þau Anna Kristín Traustadóttir, löggiltur endurskoðandi, og Erlendur Gíslason, hæstaréttarlögmaður.

Hagar voru seldir úr Baugi Group til 1998 ehf., sem er dótturfélags Gaums í júlí 2008 á 30 milljarða króna. Voru kaupin fjármögnuð með láni frá Kaupþingi og var kaupverðið nýtt til að gera upp tilteknar skuldir Baugs Group við Kaupþing og Glitni. Samkvæmt heimildum mbl.is telja skiptastjórarnir að þessi ráðstöfun hafi falið sér að öðrum kröfuhöfum var mismunað.

Hagar er móðurfélag verslananna Bónuss, Hagkaupa, 10-11, Útilíf o.fl. 

„Núna verður að koma í ljós hvort þrotabúið eigi rétt á fjárkröfunni eða ekki,“ segir Jón Ásgeir aðspurður um næstu skref.  „Þetta stenst enga skoðun. Bæði vegna þess að þetta var rétt kaupverð og að allir helstu lánardrottnar Baugs Group samþykktu að fara þessa leið á sínum tíma. Að því leytinu til er þessi ákvörðun óskiljanleg,“ segir Jón Ásgeir.

Fer fyrir dómstóla ef sátt næst ekki

„Þegar Hagar eru seldir er Kaupþing með fyrsta veðrétt í eigninni. Þeir halda sínum rétti þegar þetta færist yfir til 1998 ehf. Skiptastjórinn getur ekki breytt því. Það sem ruglar fólk er ríminu er að þetta er kallað fjárhagsleg riftun. Þetta þýðir ekki að þrotabúið sé að eignast Haga,“ segir hann jafnframt.

„Ef við komumst ekki að samkomulagi okkar á milli um leiðréttingu kaupverðs þá verður þetta dómsmál,“ segir hann. Að sögn Jóns Ásgeirs vill þrotabúið fá í kringum fimm milljarða króna svo salan til 1998 ehf. haldi. Jón Ásgeir hafnar því en hann telur að kaupverðið hafi verið eðlilegt.

„Við fengum fyrst vitneskju um þetta [riftunina] rétt fyrir fundinn. Því er þetta skrýtið útspil,“ segir hann.  

Samningi um sölu Haga rift

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK