Hrein eign lífeyrissjóðanna 1.738,5 milljarðar króna

Góð ávöxtun hefur verið af eignum lífeyrissjóðanna í útlöndum
Góð ávöxtun hefur verið af eignum lífeyrissjóðanna í útlöndum Reuters

Hrein eign lífeyrissjóðanna jókst nokkuð í ágúst, aðallega vegna góðrar ávöxtunar af erlendri hlutabréfaeign og erlendum hlutabréfasjóðum. Var hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris 1.738,5 milljarðar króna í lok mánaðarins og hafði þá aukist um 5,6 milljarða króna í mánuðinum. Kemur þetta fram í tölum sem Seðlabankinn hefur birt.

„Sjóðirnir áttu í lok mánaðarins samanlagt 390,1 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum og hækkaði sú eign um 3,1 ma.kr. í mánuðinum eða um 0,8%. Gott gengi hefur verið á ýmsum erlendum hlutabréfamörkuðum undanfarið og hækkaði t.d. S&P 500 hlutabréfavísitalan um 2,6% og Nasdaq um 5,5%. Vægi erlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða af hreinni eign til greiðslu lífeyris var um 22% í lok ágúst sem er nokkuð hátt sögulega séð og nýtist þeim vel nú þegar erlendir markaðir taka vel við sér," að því er fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Talsverð óvissa er enn um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna eftir bankaáfallið undir lok síðastliðins árs. Af þeim sökum ber að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara. Stærsta áfallið fyrir sjóðina var af innlendri hlutabréfaeign þeirra og hefur sú eign verið færð niður. Í lok september í fyrra áttu sjóðirnir 151 ma.kr. í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Um áramótin síðustu var sú staða komin í 35 ma.kr. og hafði lækkað um 116 ma.kr. frá því í septemberlok. Eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum var nú í lok ágúst 35 ma.kr. eða 2% af eign sjóðanna til greiðslu lífeyris. Staða þeirra á þeim markaði er því sáralítil enda er sá markaður afar lítill, að því er fram kemur í Morgunkorni.

Neikvæð raunávöxtun um 16%

Í ágústlok hafði hrein eign rýrnað um 4,7% að nafnvirði frá sama mánuði árið 2008. Sé hins vegar tekið mið af verðbólgu minnkaði hrein eign að raunvirði um tæplega 16% á tímabilinu. Ávöxtun sjóðanna var væntanlega talsvert rýrari en þessar tölur gefa til kynna, þar sem iðgjöld sjóðsfélaga eru mun meiri en útgreiðsla lífeyris. Til dæmis má nefna að árið 2007 námu iðgjöld umfram útgreiðslu lífeyris rúmum 93 mö.kr., sem samsvarar u.þ.b. 7,8 ma.kr. hreinu innflæði í mánuði hverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK