Flestir lykilmennirnir farnir frá Íslandi

Mótmælt á Akureyri í fyrra
Mótmælt á Akureyri í fyrra mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ári eftir fall íslensku bankanna þriggja eru flestir yfirmenn bankanna þriggja flúnir frá Íslandi, þreyttir á þeim árásum sem þeir hafa orðið fyrir. Bæði í orðræðu sem og rauðu málningunni sem skvett hefur verið á heimili þeirra og bíla, að því er fram kemur í frétt AFP fréttastofunnar.

Í fréttinni er farið yfir atburðarásina í kjölfar hrunsins, mótmælin ofl. Haft er eftir sérstökum saksóknara að 50-60 yfirmenn bankanna hafi verið yfirheyrðir en enginn enn ákærður. 

Segir ástandið eins og tifandi tímasprengja

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist vera undrandi á því að persónulegar eignir bankamannanna hafi ekki verið frystar. Það hefði verið eðlilegt að gera. Spáir hún því að aftur verði byrjað að mótmæla á laugardögum í vetur líkt og síðasta vetur og segir ástandið eins og tifandi tímasprengja.

Segir í fréttinni að flestir þeirra bankamanna sem AFP hafi rætt við nú ári eftir hrunið hafi óskað eftir því að koma fram undir nafnleynd og vildu helst ekki ræða áhrif hrunsins á einkalíf þeirra. Þeir neituðu að ræða þær hótanir sem hermt er að þeir hafi orðið fyrir og óttast að nýir vinnuveitendur fái yfir sig reiðibréf ef upp kemst um hvar þeir (bankamennirnir fyrrverandi) starfa í dag. Hins vegar eru þeir reiðubúnir til þess að tjá sig um hvað olli hruninu.

Eru þeir sammála um að fjármálakerfið hafi verið orðið of stórt á Íslandi og að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin hafi haft takmarkaða möguleika á að bjarga þeim vegna stærðar þeirra miðað við landsframleiðsluna hér.

Spurning um hvað seðlabankinn gat gert

Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, segir að þegar ríkið hafi þjóðnýtt Glitni þá var ástandið orðið vonlaust. Það sé eitthvað sem hann sjái nú en gerði sér ekki grein fyrir á þeim tíma. Á þeim tíma gagnrýndu bankamennirnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki stutt bankana.

Sagði Ármann að nánast hvert einasta ríki hafi stutt bankakerfi sitt fjárhagslega. Hins vegar væri óljóst með hvort Seðlabankinn hafi getað stutt bankana fjárhagslega. „Þegar ég lít til baka. Þá set ég spurningarmerki við hvort það hefði verið réttlætanlegt að setja svo mikið fé inn í fjármálakerfið," segir Ármann í viðtali við AFP.

Viðskiptaráðherra vissi ekki um fyrirhugaða yfirtöku

Undir þetta tekur Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sem nú starfar erlendis sem ráðgjafi. Hann segir að íslensku bankarnir hafi ekki getað lifað af jafn djúpa lausafjárkreppu nema með stuðningi frá seðlabanka og stjórnvöldum.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir í samtali við AFP að ráðuneyti hans hafi ekki verið upplýst á sínum tíma um fyrirhugaða yfirtöku á Glitni og það hafi verið gjörsamlega óásættanlegt. Á Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri. að hafa sagt að ekki væri hægt að treysta Björgvini fyrir slíkum upplýsingum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK