Hægir á samdrætti í kortaveltu

Greining Íslandsbanka segir, að heldur virðist tekið að draga úr samdrætti einkaneyslu á ársgrundvelli, enda hafi heimilin þegar verið farin að draga töluvert úr neyslu sinni á seinni hluta síðasta árs. Þannig sýni nýjar tölur Seðlabankans að kreditkortavelta í september nam 25,9 milljörðum króna og hafi ekki verið meiri að nafnverði frá því í september í fyrra.

Sé veltan hins vegar staðfærð með vísitölu neysluverðs og gengisvísitölu kemur upp úr dúrnum að hún var ríflega 18% minni að raunvirði í september en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er sér í lagi mikill í erlendri kortaveltu, sem dróst saman að raunvirði um tæp 40% á milli ára en raunlækkun innlendrar kortaveltu var 12,5% á sama tíma.

Íslandsbanki segir, að sterk fylgni sé milli raunbreytinga á kreditkortaveltu að viðbættri innlendri debetkortaveltu annars vegar, og einkaneyslu hins vegar. Samdráttur kortaveltu á þann mælikvarða var 14,5% að raungildi á þriðja fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Er það minnsti samdráttur milli ára frá þriðja ársfjórðungi í fyrra sem bendi til þess að samdráttur einkaneyslu milli ára kunni sömuleiðis að reynast minni á þriðja fjórðungi en reyndir var á fyrri helmingi ársins.

Áætlar Greining Íslandsbanka, að einkaneyslan hafi dregist saman um 13-15% á þriðja ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra, en á fyrri helmingi ársins nam samdrátturinn á milli ára 20% að meðaltali.

Segir Íslandsbanki að þar sem einkaneyslan sé veigamesti undirliður landsframleiðslunnar ættu þessar tölur að vera til marks um að samdráttur landsframleiðslunnar á þessu ári kunni að reynast eitthvað minni en þau 9% sem Seðlabankinn spáði í ágúst og fremur í takti við 7% samdráttarspá fjármálaráðuneytis frá októberbyrjun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK