Verðbólgan langmest á Íslandi

Verðbólgan er hvergi jafn mikil og á Íslandi á EES-svæðinu
Verðbólgan er hvergi jafn mikil og á Íslandi á EES-svæðinu mbl.is/Golli

Verðbólgan á Íslandi lækkaði úr 15,3% í 13,8% á milli september og október síðastliðinn samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs. Af ríkjum evrópska efnahagssvæðisins er verðbólgan, sem fyrr, langmest hér á landi.

Verðbólgan mælist næst mest í Rúmeníu (4,3%), svo í Ungverjalandi (4,2%) og þar á eftir Póllandi (3,8%). Að meðaltali er verðbólgan nú um 0,5% meðal ríkja EES en innan evrusvæðisins, þar sem flest ríki eru nú að upplifa verðhjöðnun, hefur samræmd vísitala lækkað að meðaltali um 0,1% á síðustu tólf mánuðum, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

„Verðhjöðnun fer gjarnan saman við samdrátt og vaxandi atvinnuleysi líkt og verið hefur víða í Evrópu undanfarið. Mest er verðhjöðnunin á Írlandi, eða um 2,8%, en þar í landi hefur verið mikill samdráttur í landsframleiðslu, auk þess sem atvinnuleysi hefur farið hratt vaxandi. Það var Hagstofa Evrópusambandsins sem birti tölur um þetta í gær."

Stærsti munur samræmdrar vísitölu neysluverðs og þeirrar vísitölu sem hér á landi er almennt notuð sem mælikvarði á verðbólgu, myndar viðmið verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og Hagstofan reiknar er að íbúðaverð er ekki tekið beint inn í samræmdu vísitöluna, að því er segir í Morgunkorni.

Íbúðaverð hefur lækkað nokkuð undanfarið og mælist verðbólgan því töluvert hærri samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs en hinni hefðbundnu. Samkvæmt þeirri síðarnefndu mældist verðbólgan í október 9,7% sem er um 4,1 prósentustigum lægri en samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK