Hagvöxturinn fenginn að láni

Bankahrunið átti sér forsögu og margs konar orsakir, að sögn Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins á ársfundi þess í dag. Sagði hann suma leggja áherslu á erlendar orsakir hrunsins og aðra telja að það sé heimagert. Báðir hafi eitthvað til síns máls.

Íslenska fjármálakerfið hafi ekki óvart lent í þeim hremmingum sem dunið hafi yfir. Afskriftir útlána lánastofnana sýni að ekki hafi verið vandað nægilega til við afgreiðslu útlána. Slök áhættustýring og innra verklag bankanna segir Gunnar bera vott um mikla áhættusækni þeirra.

Ofurmetnaður útrásarinnar hafi ekki verið í samræmi við getu og bolmagn þeirra sem í hlut áttu eða íslenska hagkerfisins. Hagvöxtur undanfarinna ára hafi verið fenginn að láni.

Auk óeðlilegra viðskiptahátta bankanna segir hann að alvarleg lögbrot hafi verið unnin. Sterkar vísbendingar séu um að framin hafi verið umboðssvik og markaðsmisnotkun af ýmsu tagi og hugsanlega alvarlegri brot, sem falli undir almenn hegningarlög.

Tuttugu og sjö mál til sérstaks saksóknara

Segir hann að þrátt fyrir öran vöxt íslenska fjármálakerfisins undanfarin ár hafi fjárhagslegur burður FME ekki aukist til samræmis við það. Nefnir hann það á meðan fjármálakerfið óx um 500 prósent hafi starfsmönnum eftirlitsins fjölgað um 100 prósent. Þá hafi mikil starfsmannavelta FME á sama tíma veikt eftirlitið.

Það sem af er ári hefur Fjármálaeftirlitið vísað 27 málum til sérstaks saksóknara, tveimur til efnahagsbrotadeildar ríkissaksóknara, fimm til saksóknara og þá hafa fimm stjórnvaldssektir verið ákvarðaðar.  Fjörutíu og fimm málum hefur lokið með sátt.

Gunnar Þ. Andersen.
Gunnar Þ. Andersen.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK