Lækkuðu minna vegna óvissunnar

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að sú staða sem uppi er í Icesave-deilunni og hugsanleg áhrif á lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum geri það að verkum að bankinn telji sig þurfa að fara varlegar en áður var talið í lækkun vaxta. Hins vegar hjálpi gjaldeyrishöftin við að viðhalda stöðugleika. Ólíklegt sé að þau verði afnumin á næstunni. Þetta kom fram á fundi með fréttamönnum og greiningardeildum í dag.

Að sögn Más er alveg ljóst að vextir hefðu lækkað meira ef ekki hefði verið þessi mikla óvissa sem nú ríkir. Ef staðan hefði verið sú sama og hún var rétt fyrir áramót hefðu vextirnir lækkað enn frekar. Segir seðlabankastjóri að það sé alveg ljóst.

Mikið kappsmál að Icesave-deilan leysist

Hann segir að vegna endurfjármögnunar lána ríkissjóðs á árunum 2011 og 2012 sé það seðlabankanum mikið kappsmál að Icesave-deilan leysist. Það sé hins vegar í höndum stjórnmálamannanna að ákveða hvernig hún leysist.

Óskastaðan sé að málið leysist í sátt við umheiminn á allra næstu vikum, hvort heldur sem það er með þjóðaratkvæðagreiðslu eða öðrum leiðum, að sögn Más.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að sumt hafi unnið gegn því að undanförnu að gjaldeyrishöftin verði afnumin.  Hann segir að nauðsynlegt sé að óvissu varðandi efnahagsáætlun Íslands verði aflétt áður en gjaldeyrishöftum verði aflétt, hvort heldur sem að hluta eða að fullu.

Óvissunni getur fylgt lækkun gengis krónu og hærri vextir

Már segir að grunnspá Seðlabankans byggi á því að efnahagsáætlunin haldist. „Það er ekki að mínu mati tímabært að gera eitthvað stórkostlegt plan B og hrinda því í framkvæmd. Því við höfum tíma í einhverjar vikur að sjá hvort við komust úr þessari óvissu," segir Már og bætir við að ef það gerist ekki þá skapist hér á Íslandi vissar aðstæður og ljóst að höftin verða til staðar lengur en áður var áætlað. Þessari óvissu geti fylgt töluverð lækkun krónu, hærri vextir ofl.

Að sögn seðlabankastjóra stendur til að gera skýrslu um gjaldeyrishöftin og áhrif þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK