Seðlabankinn kaupir skuldabréf á eftirmarkaði

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum mánuðum keypt á eftirmarkaði skuldabréf úr þeim flokkum sem koma til gjalddaga veturinn 2011 og 2012. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra á ársfundi bankans í dag.

Um er að ræða erlend lán ríkissjóðs sem eru á gjalddaga veturinn 2011 og 2012. Nema þessi kaup að nafnvirði 116 milljónir evra og hafa verið gerð á mjög góðum kjörum, að sögn Más.

Ríkissjóður og Seðlabankinn íhuga frekari kaup skuldabréfa í þessum skuldabréfaflokkum. Ákvarðanir um frekari kaup yrðu teknar í hverju tilfelli fyrir sig með hliðsjón af markaðsaðstæðum og lausafjárstöðu Seðlabankans á hverjum tíma.
Þessi aðgerð gerir það meðal annars að verkum að gjaldeyrisforðinn nú hrekkur fyrir þessum afborgunum. Auk þess mun hún þegar upp verður staðið lækka erlendar skuldir ríkissjóðs með minni tilkostnaði en ef ekki hefði komið til þeirra, segir Már.

„Fáist aðgangur að því sem eftir á að borga út af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna verður hægt að styrkja forðann um 2½ milljarð evra til viðbótar. Þá yrði forðinn samtals 3,9 milljarðar evra eða sem samsvarar nær helmingi landsframleiðslu og tæplega 21 mánaða vöruinnflutningi þegar hann yrði mestur áður en til fyrrnefndra afborgana kemur.

Það er auðvitað mun meiri forði en við þurfum til lengdar og kostar sitt. Þess vegna verður haldið áfram að bæta matið á því í hvaða mæli og hvenær við þurfum þessi viðbótarlán.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að þörfin fyrir hámarksforða mun einungis standa í stuttan tíma meðan verið er að komast út úr gjaldeyrishöftunum og sjá fyrir endann á þessum þungu afborgunum," sagði Már í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans.

Seðlabankastjóri fjallaði um þá lækkun sem orðið hefur á vöxtum bankans frá síðasta ársfundi hans en þá voru þeir 17%.

„En þótt vextir hafi lækkað mikið er því ekki að leyna að þeir eru hærri en æskilegt væri í ljósi þess slaka sem er í efnahagslífinu og að þeir gætu verið lægri ef litið er einungis til verðbólguhorfa.

Þetta er gjaldið sem við greiðum fyrir gjaldeyris- og bankakreppuna, skort á tiltrú á erlendum fjármálamörkuðum og þann skerta aðgang sem við nú höfum að þeim. Það er einfaldlega hátt áhættuálag í íslenskum vöxtum.

Virki gjaldeyrishöftin vel, eins og þau virðast gera um þessar mundir, veita þau auðvitað eitthvert svigrúm til að horfa fram hjá þessu áhættuálagi. Þau hafa hins vegar enn sem komið er ekki verið látin gangast undir próf mikillar og snarprar vaxtalækkunar og mun minni vaxtamunar gagnvart útlöndum en nú er.

Ekki hefur enn verið talið tilefni til að ákveða vexti miðað við þá forsendu að engin skref verði stigin á næstunni til að aflétta gjaldeyrishöftum," sagði Már.

Ræða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í heild

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK