Yfirlýsing frá Ingunni Wernersdóttur

Merki Milestone
Merki Milestone

Ingunn Wernersdóttir, fjárfestir, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllun um hana og sölu á hlutabréfum hennar í Milestone. Hún segir að hún hafi fengið greitt fyrir hlutabréfin á árunum 2005-2007 og langstærstur hluti þeirra sé utan riftunarfrests gjaldþrotalaga.

 „Að gefnu tilefni vil ég, undirrituð koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við umfjöllun fjölmiðla, m.a.  DV, Fréttablaðsins og Viðskiptablaðsins, um sölu á hlutabréfum mínum í Milestone á sínum tíma. Umfjöllun þessara miðla hefur verið villandi og oft og tíðum beinlínis röng. Ranglega hefur verið farið með tölur og misfarið með staðreyndir. Mun ég hér á eftir reyna að skýra málið og leiðrétta helstu rangfærslur.

Í desember árið 2005, fyrir rúmlega 4 árum, seldi ég öll hlutabréf mín í fyrirtækinu Milestone. Í samræmi við samning þar að lútandi, gekk ég þá þegar úr stjórn Milestone og allra tengdra félaga.  Frá þeim degi hef ég ekki með nokkrum hætti komið að ákvarðanatökum innan Milestone né nokkru öðru er lýtur að rekstri þess.  Hið sama á við um sérhvert félag því tengt. 

Greiðslur til mín vegna umræddra hlutabréfaviðskipta áttu sér stað á árunum 2005, 2006 og 2007.  Langstærstur hluti þeirra er því fyrir utan tveggja ára riftunarfrest gjaldþrotalaga og ættu því ekki að vera til umræðu, hvorki hjá skiptastjóra né í fjölmiðlum. 

Rétt er að fram komi, að söluverð umræddra hlutabréfa hef ég fengið greitt með reiðufé og fjárkröfu á hendur Sjóvá.

Ákveðnir fréttamiðlar hafa upp á síðkastið keppst við að blanda minni persónu á ósmekklegan hátt inn í síðari tíma viðskipti og ákvarðanatökur hjá Milestone, sem eins og að framan segir, voru mér alls ókunn og óviðkomandi.

Sem dæmi um slíkan fréttaflutning má nefna að talað hefur verið um svokallaðan „Ingunnarhring”.  Því er haldið fram að eftir flókna uppsetningu viðskipta hafi greiðslur að lokum komið til mín frá Sjóvá.  Þetta er alrangt og um hreinan uppspuna að ræða.  Sannleikurinn er sá, að hluti ofangreindrar sölu hlutabréfa í Milestone var greiddur til mín með skuldaviðurkenningu/kröfu á Sjóvá eins og áður sagði.  Sú krafa á Sjóvá er í vanskilum. 

Hvernig þeir, sem áttu við mig viðskipti, kusu að fjármagna greiðslur til mín var og er ekki á mína ábyrgð, ekki frekar en gengur og gerist almennt í viðskiptum.  

Að lokum vil ég árétta að ég fékk aldrei lán hjá Milestone.  Ég seldi hlutabréf í félaginu og fékk andvirðið greitt.  Hér var um fullkomlega eðlileg viðskipti að ræða og heiðarleg af minni hálfu, enda var greiddur fjármagnstekjuskattur í ríkissjóð af söluhagnaði eins og lög gera ráð fyrir. Því virðast umræddir fjölmiðlar hafa gleymt í umfjöllun sinni. 

Með yfirlýsingu þessari er bundin von við að umræddir fjölmiðlar vandi sig betur við úrvinnslu þeirra gagna sem þeir hafa undir höndum og þar með fréttaflutning sinn allan," segir í yfirlýsingu sem Ingunn Wernersdóttir skrifar undir en hún er systir Karls og Steingríms Wernerssona.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK