Fréttaskýring: Fáheyrð ávöxtun á víkjandi skuldabréfum Glitnis

Glitnir Kirkjusandi
Glitnir Kirkjusandi mbl.is/ÞÖK

Glitnir sótti sér 10-15 milljarða með útboði á víkjandi skuldabréfum í mars 2008. Kjörin á bréfunum voru vægast sagt góð. Fjárfestum voru boðin breytileg skuldabréf með 8% verðtryggðum vöxtum. Þeir sem keyptu skuldabréfin á þessum tíma voru því í raun betur settir en hluthafar bankans, að því gefnu að starfsemi bankans myndi halda áfram út líftíma skuldabréfsins. Glitnir gat notað skuldabréfaflokkinn sem um ræðir til að bæta eiginfjárstöðu sína.

Þegar Glitnir seldi skuldabréfin hafði bankinn nýlokið við misheppnaða kynningu í Bandaríkjunum. Bankinn hafði ætlað að sækja sér fé vestur um haf, en starfsmenn bankans sem ferðuðust og hittu fjárfesta komu tómhentir heim. Því var gripið til þess ráðs að selja lífeyrissjóðum breytileg, víkjandi skuldabréf á fáheyrðum kjörum. Heimildir Morgunblaðsins herma að skuldabréfaflokkurinn sem um ræðir hafi verið vinsæll ekki eingöngu meðal lífeyrissjóða, heldur líka smærri fjárfesta.

Bjarni ekki sestur í stjórn

Fram hefur komið að Lífeyrissjóðurinn Gildi keypti víkjandi bréf af Glitni á þessum tíma fyrir tæplega fjóra milljarða króna. Jafnframt keypti Almenni lífeyrissjóðurinn sama flokk fyrir 2,9 milljarða króna. Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, sat í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins um skeið á árinu 2008. Bjarni segist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa komið nálægt ákvörðunum um kaup á þessum bréfum, enda hafi hann verið kjörinn í stjórn sjóðsins 16. apríl 2008 og setið sinn fyrsta stjórnarfund þann 23. apríl.

Fram kemur í ársskýrslu Almenna lífeyrissjóðsins 2008 að Bjarni hafi hætt í stjórninni 28. október 2008, ríflega þremur vikum eftir að íslenska bankakerfið hrundi.

Afskrifað að fullu

Bæði Almenni lífeyrissjóðurinn og Gildi hafa afskrifað skuldabréfin sem um ræðir í sínum bókum. Víkjandi skuldabréf eru þess eðlis að við gjaldþrot útgefanda fara eigendur víkjandi skuldabréf aftur fyrir almenna og forgangskröfuhafa. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur ekki birt uppgjör fyrir allt árið 2009. Hins vegar kemur fram í uppgjöri fyrstu þriggja fjórðunga ársins 2009 að sjóðurinn hafi afskrifað um 12 milljarða króna vegna skuldabréfa útgefinna af bönkum og sparisjóðum. Sú afskrift er ekki sundurliðuð frekar.

Var ekki skráð í Kauphöll

Lífeyrissjóðir íhuga nú málsókn vegna skuldabréfaflokksins, en krafa sjóðsins er að kröfunni verði breytt í almenna kröfu. Greint var frá því Morgunblaðinu í gær að forsvarsmenn Gildis telji sjóðinn hafa verið blekktan við kaup á bréfunum, en þeir héldu að staða Glitnis hefði verið mun betri en síðar átti eftir að koma í ljós. Jafnframt er talið að formgalli á skráningu skuldabréfaflokksins hafi verið fyrir hendi, en bréfin voru ekki skráð í Kauphöllina sem víkjandi skuldabréf.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK