Santander sömu leið og Kaupþing?

Hlutabréf í spænska bankanum Santander, öðrum stærsta banka Evrópu, hafa fallið um 25% á liðnum þremur vikum. Hefur lækkunin aukið áhyggjur af lánshæfismati bankans en skuldatryggingarálag hans hefur einnig lækkað verulega. Óttast Bretar að bankinn geti hlotið sömu örlög og Kaupþing í Bretlandi haustið 2008.

Í frétt Telegraph í morgun er bent á að útibú Santander í Bretlandi sé í hópi stærstu banka þar í landi. Hefur bankinn keypt upp nokkra aðra banka á seinni árum. Um 25 milljónir Breta eru í viðskiptum við Santander, sem hefur m.a. náð þriðjungshlut á íbúðalánamarkaðnum.

Ekki dró úr áhyggjum fjármálamarkaðarins breska þegar lánshæfismat Spánar var lækkað í vikunni. Sérfræðingar vilja þó sumir hverjir ekki vera svo svartsýnir, einkum vegna þess að Santander í Bretlandi starfi alfarið undir þarlendum reglugerðum og eftirliti. Móðurbankinn getur heldur ekki gengið í vasa dótturfélagsins og tæmt þá ef illa árar, líkt og gerðist með starfsemi Lehman Brothers í Bretlandi sem á að hafa verið tæmdur degi fyrir fall bankans á Wall Street. Santander sé einnig með mjög dreifða starfsemi, ekki aðeins í Evrópu heldur einnig í S-Ameríku.

Í frétt Telegraph er rifjað upp í þessu sambandi hvernig fór fyrir Kaupthing Singer & Friedlander, dótturfélagi Kaupþings, haustið 2008. Þar hafi breskir fjármagnseigendur misst allt traust á bankanum, líkt og gerðist með Northern Rock, og ótti hafi gripið um sig vegna falls bankanna á Íslandi. Þó að breska dótturfélag Kaupþings hafi verið þokkalega vel stætt hafi það ekki þolað áhlaupið sem kom í kjölfar hruns bankanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK