BM Vallá óskar eftir gjaldþrotaskiptum

Stjórn  BM Vallár hf. hefir lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur beiðni um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið fékk greiðslustöðvun í byrjun febrúar.

Á undanförnum mánuðum hefur félagið unnið  að fjárhagslegri endurskipulagningu í samstarfi við helstu lánardrottna sína. Drög lágu fyrir að nauðasamningi við lánardrottna sem byggðu á samkomulagi um uppgjör við veðhafa og greiðslu á 30% óveðtryggðra krafna.

Ein meginforsenda fjármögnunar nauðasamnings var skuldabréfaútboð sem félagið hafði unnið og kynnt fyrir fagfjárfestum, að því er segir í tilkynningu.

„Á fundi með viðskiptabönkum félagsins, Arion banka og Landsbanka, síðastliðinn föstudag var óskað eftir því að félagið fengi heimild til að leggja fram nauðasamningsfrumvarp á þessum grunni og freista þess að ljúka á sama tíma fyrrnefndu skuldabréfaútboði. 

Á fundinum hafnaði Arion banki þeirri málaleitan og setti fram þá kröfu að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í ljósi þessarar afstöðu bankans var stjórn félagsins nauðbeygð til að leggja fram beiðni um gjaldþrotaskipti félagsins í dag," segir í tilkynningu.

Stjórnin segir, að fjárhagsstaða félagsins hafi verið óviðunandi um langt skeið vegna þeirra hamfara sem gengið hafi yfir íslenskt efnahagslíf. Fjármögnun félagsins hafi að mestu verið í erlendum lánum sem liðlega tvöfölduðust við hrun íslensku krónunnar á árinu 2008.

Á sama tíma hafi orðið gríðarlegur samdráttur í eftirspurn á byggingavörumarkaði og hefur sala á helstu vörum BM Vallár dregist saman um á bilinu 50-70%. Brugðist hafi verið við þessum samdrætti á undanförnum misserum með öllum tiltækum ráðum. Mikill sparnaður hafi náðst fram í rekstrarkostnaði félagsins og grípa hafi þurft til umfangsmikilla uppsagna á starfsfólki sem hafi fækkað um liðlega 330 á liðnum tveimur árum.

„Þessi samdráttur hefur orðið enn meiri en ella vegna úrræðaleysis og vandræðagangs stjórnvalda í aðgerðum til stuðnings efnahagslífinu.
Af þessum ástæðum var umfangsmikillar endurskipulagningar þörf á efnahag félagsins en áætlanir þar um gengu því miður ekki eftir.

Við þrot er ljóst að fjárhagslegt tjón allra kröfuhafa, sér í lagi almennra kröfuhafa félagsins, verður umtalsvert meira en ella hefði þurft að verða. Hörmum við að niðurstaðan hafi orðið þessi," segir í tilkynningu frá stjórnendum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK