Sammála um vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi.
Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi.

Allir þeir sem sitja í peningastefnunefnd Seðlabankans lýstu sig sammála tillögu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur þann 23. júní. Einn nefndarmanna hefði raunar kosið að lækka vexti minna og annar hefði viljað að vextir lækkuðu meira.

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar, sem birt var nú síðdegis, að Már lagði til á fundinum að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,5 prósentur.  Allir nefndarmenn samþykktu tillögu seðlabankastjóra. Þótt tveir nefndarmenn hefðu heldur kosið að ákvörðunin yrði önnur voru þeir báðir þeirrar skoðunar að munurinn væri það lítill að þeir gætu fallist á tillögu seðlabankastjóra.

Af þeim tveimur nefndarmönnum sem vildu taka aðra ákvörðun lagði annar til 0,25 prósentna vaxtalækkun og hélt því fram að í skuldatryggingarálaginu fælist vanmat á raunverulegu áhættuálagi á íslenskar fjáreignir og svigrúm til að draga úr peningalegu aðhaldi án þess að grafa undan gengi krónunnar væri því minna en skuldatryggingarálagið segði til um.

Hinn nefndarmaðurinn hélt því fram að hjaðnandi verðbólga endurspeglaði lokastig gengisáhrifanna eftir að gengi krónunnar veiktist á síðasta ári. Þar sem verðbólga færi hjaðnandi, verðbólguvæntingar væru stöðugar og gengi krónunnar væri að styrkjast væri tilefni til að lækka vexti um 0,75 prósentur.

Þessi nefndarmaður bætti því einnig við að óvissan sem hefði skapast við nýlega dóma Hæstaréttar gæti dýpkað fjármálakreppuna með því að veikja bankakerfið, sem væri röksemd með lægri vöxtum, en gæti einnig aukið á gjaldeyriskreppuna, sem gæfi tilefni til hærri vaxta. Best væri að bregðast við áhrifunum á gjaldeyriskreppuna með gjaldeyrishöftum og nota lægri vexti til að bregðast við fjármagnskreppunni.

Nefndarmenn voru sammála um, að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð var, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar.

Fundargerð peningastefnunefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK