Hefur lítil áhrif á afborganir lána

Lækkun á vísitölu neysluverðs síðustu mánuði hefur þau áhrif að verðtryggð lán lækka. Lækkunin hefur þó afar lítil áhrif á mánaðarlegar afborganir en höfuðstóllinn lækkar nokkuð og er það gleðiefni fyrir skuldara sem hafa horft upp á verðbólgu keyra upp lánin sín undanfarna mánuði.

Vísitalan mældist 361,7 stig í júlímánuði og er 0,66% lægri en í júní. Hún lækkaði einnig um 0,33% frá maí fram í júní og hefur því samanlagt lækkað um 0,99% síðustu tvo mánuði.

Sé tekið dæmi um 20 milljón króna verðtryggt lán með 5% vöxtum til 40 ára sem var tekið í janúar árið 2007 er ljóst að höfuðstóllinn hefur lækkað um 268.207 krónur síðustu tvo mánuði. Lánið stendur á hinn bóginn í um 27 milljónum í dag þrátt fyrir að skuldari hafi borgað umtalsverðar fjárhæðir mánuð eftir mánuð.

Þegar vísitalan lækkaði í júní lækkaði höfuðstóllinn um 89.567 krónur og núna hefur hann aftur lækkað um 178.540 krónur. Verðbæturnar hafa sveiflast umtalsvert mikið milli mánaða og á þessu láni eru nettó-verðbætur í dag 6.130.906 krónur. Vísitalan var 268 stig við fyrstu afborgun.

Skref í rétta átt

Runólfur Ágústsson, nýskipaður umboðsmaður skuldara sem hefur störf 1. ágúst næstkomandi, segir að þessi lækkun á vísitölunni sé skref í rétta átt. „Þetta eru auðvitað mjög jákvæð tíðindi. Ég bind vonir við það að þessi lækkun haldi áfram og við sjáum líka að atvinnuleysistölur eru lægri en gert var ráð fyrir þannig við vonum að þetta sé að skríða í rétta átt.“

Runólfur segir jafnframt að verðtryggingin sé mikið vandamál og segir langtímamarkmið vera að losna við hana. „Verðtryggingin hefur þær afleiðingar að öll áhætta í hagkerfinu liggur alltaf hjá skuldurum og þetta er auðvitað kerfi sem við þurfum að koma okkur út úr. Lánveitandi er alltaf með belti og axlabönd hvað snertir þróun í hagkerfinu – áhættan er engin hjá honum en öll hjá skuldaranum.“

Nýtt embætti umboðsmanns skuldara hefur störf næsta þriðjudag og tekur þá við allri starfsemi sem ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hafði áður umsjón með.

Að sögn Runólfs bíða um 600 óafgreidd mál.

„Við ætlum að fara beint í að forgangsraða strax eftir helgi og senda bréf til fólksins og gera því grein fyrir stöðu málsins. Markmiðið er svo að vinna niður þennan stafla á sem allra skemmstum tíma.“

Hann gerir jafnframt ráð fyrir því að meirihluti málanna sé hefðbundin ráðgjafarmál sem muni enda í greiðsluaðlögun.

Vísitalan
» Vísitala neysluverðs hefur lækkað um samanlagt 0,99% síðustu tvo mánuði. Lækkunina má að mestu rekja til verðlækkunar á fötum og skóm vegna sumarútsala.
» Sé tekið dæmi um 20 milljón króna lán til 40 ára með 5% vexti sem tekið var árið 2007 hefur höfuðstóll þess lækkað um 268.207 krónur á þessum tveimur mánuðum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK