Segir gagnrýni á Hagstofuna ekki maklega

Gagnrýni á hagtölur Hagstofunnar, sem meðal annars kom fram í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, er ekki makleg. Þetta segir Rósmundur Guðnason, yfirmaður efnahagssviðs Hagstofunnar.

Segir hann að alltaf líði nokkur tími þar til öll gögn um þjóðarframleiðslu liggja fyrir og þar að auki hafi efnahagshrunið og kreppan sett strik í reikninginn.

Í Morgunkorninu er bent á að tölur Hagstofunnar um breytingu á landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi 2008 hafi breyst mikið frá því að fyrstu tölur voru birtar. Nú telji Hagstofan að þá hafi verið 0,8 prósenta samdráttur í landsframleiðslu en fyrstu tölurnar fyrir fjórðunginn greindu frá 4,8 prósenta hagvexti.

Kreppan hafði áhrif

„Tölur fyrir einstaka ársfjórðunga geta sveiflast töluvert eftir því sem við fáum meiri upplýsingar. Þá þurfum við að leiðrétta tölurnar eftir ákveðnum aðferðum og flytja á milli fjórðunga eftir því sem við á. Efnahagshrunið og kreppan gerðu þessa vinnu erfiðari á sínum tíma.

Við gerum okkur grein fyrir þessu og höfum birt tölur fyrir einstaka fjórðunga með fyrirvara, en tölurnar fyrir árin í heild eru mun öruggari. Við birtum tölur fyrir fjórðungana til upplýsingar og tölurnar geta gefið ákveðnar vísbendingar um þróunina, en hafa ber í huga að þær geta breyst eftir því sem við fáum meiri upplýsingar. Þess vegna geta menn lent í vanda ef þeir einblína um of á einstaka fjórðunga í tölum okkar í stað þess að skoða tölurnar fyrir hvert ár í heild sinni.“ Rósmundur segir að vissulega sé rými fyrir Hagstofuna að bæta sig eins og aðra. „Við munum á næstunni fá til okkur sérfræðinga frá hagstofu Evrópusambandsins til að fara yfir aðferðafræði okkar með okkur. Vonandi getum við minnkað sveiflur í tölum fyrir einstaka fjórðunga í framtíðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK