Ekkert líf án raunhæfra ráðstafana

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason. mbl.is/Kristinn

Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, segir að það þýði lítið að hvetja menn til að hleypa lífi í hlutabréfamarkaðinn áður en gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Traust á markaði sé ekki til staðar og núverandi skattastefna stjórnvalda sé ekki til að bæta ástandið.

Vilhjálmur vísar til ummæla sem komu fram í fyrirlestri Ásgeirs Jónssonar, aðalhagfræðings Arion banka á fundi greiningardeildar bankans í morgun.

„Ég hef gert margar tilraunir til þess að fá umræðu um það af hverju er ekki líf í honum,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

„Í fyrsta lagi er staðan sú að það vantar traust á markaðinn. Traustið er m.a. ekki vegna þess að upplýsingar eru lélegar. Þar á ég við, að það er ekkert hægt að treysta á skýrslur endurskoðenda,“ segir hann.

„Það er algjört vantraust á birtum upplýsingum frá endurskoðendum, og sannast best á því að u.þ.b. 60-70% af eignum bankanna voru ekki til staðar samkvæmt uppgjöri 30. júní í fyrra,“ segir Vilhjálmur ennfremur.

„Í öðru lagi er skattlagning með þeim hætti að nánast 100% af rauntekjum af hlutabréfum og peningalegum eignum er skattlagður miðað við núverandi verðbólgustig.“

Arður sé skattlagður, síðan sé verðhækkun á bréfum skattlögð án tillits til verðbólgu og svo geti menn lent í svokölluðum auðlegðarskatti. „Þannig að þetta er þrískattlagt,“ segir hann.

Þá segir Vilhjálmur að réttarstaða hluthafa við núverandi aðstæður sé engin. „Það er enginn vernd fyrir markaðsmisnotkun,“ segir Vilhjálmur ennfremur.

„Þetta kemur í veg fyrir að það verður eitthvað líf í hlutabréfaviðskiptum.“

Það þýði því lítið að halda ræður um það að einhver eigi að hleypa lífi í markaðinn. Það sé alveg vonlaust fyrir einstaklinga að berjast. Þá hafi lífeyrissjóðir ekki tekið af skarið.

„Á meðan það eru ekki gerðar raunhæfar ráðstafanir í þessu að þá verður ekki líf á hlutabréfamarkaði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK