Íhuga skatt á fjármálaþjónustu

Verði tekinn upp skattur á fjármálaþjónustu í samræmi við útfærslu Breta, er skattstofninn áætlaður um 2 milljarðar króna. 0,05% skattur gæti samkvæmt því skilað 1 milljarði króna í ríkissjóð. 

Fram kemur í áfangaskýrslu starfshóps, sem hefur fjallað um íslenska skattkerfið, að í kjölfar efnahagskreppunnar hafi komið til skoðunar víða um lönd að beita skattheimtu, sem auk þess að hjálpa til við að rétta við fjárhag ríkissjóða, gæti stuðlað að ábyrgari og áhættuminni starfsemi fjármálastofnana.

Rök fyrir slíkri skattheimtu séu einkum þau að ríkissjóðir margra landa hafi þurft að leggja fjármálastofnunum til mikið fé til að standast áfallið og eðlilegt sé að hluti þess stuðnings sé endurgreiddur í þessu formi.

Sérstakur bankaskattur var tekinn upp í Svíþjóð árið 2009. Þá segir starfshópurinn, að einnig liggi fyrir nokkuð fullmótaðar tillögur um slíka skattlagningu í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Bandaríska þingið felldi hins vegar tillögu um bankaskatt fyrr á árinu.

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í júní sl. að leggja til við aðildarríkin að þau komi sér upp sjóðum til þess að takast á við kostnað vegna fjármálaáfalla. Gert er ráð fyrir frekari umfjöllun á fundi ráðsins í október. Þar verða einnig kynntar tillögur framkvæmdastjórnarinnar um þróun nýs krísustjórnunarkerfis og væntanlegar lagatillögur þar að lútandi.

Starfshópurinn segir, að samkvæmt þeim reglum sem miðað sé við í Svíþjóð og liggi fyrir í Bretlandi, sé skattstofninn efnahagsreikningur fjármálastofnana að frádregnum innstæðum sem falla undir innistæðutryggingar, eigin fé og fáeinum öðrum takmörkuðum skuldaliðum. Skattstofninn verði því í reynd þær skuldir, aðrar en þær sem undanþegnar eru, sem fjármálastofnanir stofna til í þeim tilgangi að endurlána. Með því sé vonast til að þær fari varlegar í sakirnar hvað varðar skuldsetningu og að stofnanirnar geri meiri kröfur til þeirra sem þær lána.

Það skatthlutfall sem miðað er við í Bretlandi og gera megi ráð fyrir að verði stefnumótandi, er 0,07% sem tekið yrði upp í tveimur áföngum. Einstakar lánategundir sæti þó lægri álagningu.

Starfshópurinn segir, að álagning sérstaks skatts á fjármálastofnanir hér á landi eftir hrun þessara stofnana hafi að sjálfsögðu vakið spurningar um getu þeirra til að greiða þennan skatt. Búast megi við, að honum verði velt yfir á viðskiptavini bankans, þ.e. lántakendur í formi hærri vaxta og innstæðueigendur í formi lægri innlánsvaxta. Sé slíkur skattur almennt tekinn upp í helstu viðskiptalöndum Íslendinga séu hins vegar vandfundin rök fyrir því að undanskilja fjármálastofnanir hér á landi.

Athygli hafi þó verið vakin á því að hérlendar bankastofnanir hafi nokkra sérstöðu þar sem ríkissjóður hafi ekki lagt þeim til fé sem lán eða höfuðstól til björgunar eins og algengt var í öðrum löndum, heldur hafi verið stofnaðir nýir bankar í stað þeirra sem fóru í þrot. Þar sem reikna verði með, að þeir bankar sem slíka fyrirgreiðslu fengu þurfi að greiða vexti eða arð af því fé og skatturinn komi þar til viðbótar, þurfi ekki að ætla að staða þeirra á markaði sé betri en þeirra sem enga slíka fyrirgreiðslu fengu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK