Ágúst nær sátt í skuldamáli

Ágúst Guðmundsson.
Ágúst Guðmundsson. mbl.is/Ómar

Ágúst Guðmundsson, annar aðaleigandi Bakkavarar Group, hefur náð sáttum í máli, sem höfðað var á hendur honum vegna 7,46 milljóna evra láns, 1,15 milljarða króna, sem hann og kona hans fengu hjá Kaupþingi í Lúxemborg til að kaupa skíðaskála í frönsku ölpunum.

Þetta kemur fram á vef Fincancial Times í kvöld.  Þar segir að Kaupþing í Lúxemborg hafi lánað Ágústi og Þuríði Reynisdóttur, konu hans, þessa fjármuni í október 2007 til að kaupa skíðaskála og lóð í Chamonix í Frakklandi.

Financial Times segir, að þótt upphæðin, sem þetta mál snúist um, sé ekki nema brot af þeim fjárhæðum sem íslensku bankarnir lánuðu stærstu hluthöfum og tengdum aðilum, þá sýni það vel hvernig þessi tengsl voru og að bankarnir hafi fjármagnað einkaneyslu og fasteignakaup helstu eigenda sinna. 

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir voru stærstu hluthafar Kaupþings í gegnum fjárfestingarfélagið Exista, sem var jafnframt meðal helstu skuldunauta bankans. Segir Financial Times, að bræðurnir hafi tapað stærstum hluta af pappírseignum sínum eftir bankahrunið en tekist að halda yfirráðum yfir Bakkavör með samningum við lánardrottna. 

Það var félagið Pillar Securitisation, sem höfðaði málið gegn Ágústi en það yfirtók lánabók Kaupþings í Lúxemborg á síðasta ári. Í kærunni, sem lögð var fyrir yfirrétt í Lundúnum, segir að Ágúst og kona hans hafi fullnýtt lánsheimildina í nóvember 2007 til að kaupa skíðaskálann. 

Fram kemur síðan í kærunni, að Ágúst hafi ekki greitt 30.908 evra afborgun í nóvember og í kjölfarið gjaldfelldi Pilar allt lánið og krafðist þess að eftirstöðvarnar, 6,558 milljónir evra, yrðu greiddar.

Financial Times segir, að talsmaður Ágústs hafi ekki viljað tjá sig um málið í dag en blaðinu skiljist að búið sé að ná sátt í deilunni. 

Starfsmenn  efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar gerðu húsleit á skrifstofum Bakkavarar og Exista í Bretlandi í janúar í samvinnu við embætti sérstaks saksóknara á Íslandi. Sú rannsókn tengdist Exista. Bræðurnir sögðust ekkert hafa brotið af sér og engin ákæra hefur verið lögð fram.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK