Fréttaskýring: Skuldsetning hafin á ný

Eitt af skipum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Jakobs Valgeirs í Bolungarvík.
Eitt af skipum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Jakobs Valgeirs í Bolungarvík.

Þrátt fyrir að hafa fengið afskrifaðar skuldir upp á milljarða króna fékk útgerðarfélagið Jakob Valgeir ehf. samþykki Landsbankans fyrir því að taka yfir hluta af skuldum annars útgerðarfélags í sambandi við kaup á aflaheimildum og skipum.

Fyrst var sagt frá þessu máli í Kastljósi RÚV í vikunni.

Málið er tiltölulega flókið, ekki síst vegna þess að í því skipta hlutafélög ítrekað um nöfn og kennitölur og skiptast jafnvel á nöfnum.

Í miðju málsins er Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður í Bolungarvík. Hann var einn þeirra sem tók þátt í fjárfestingum Stíms hf., en málefni þess félags er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Jakob Valgeir átti persónulega 2,5 prósenta hlut í Stími auk þess sem hann átti önnur 5 prósent í gegnum félag, sem hann átti með Ástmari Ingvarssyni. Aðrir menn honum tengdir áttu svo 25 prósent í Stími til viðbótar.

Stím var stofnað til kaupa á hlutabréfum í Glitni og FL Group og fékk 19 milljarða króna lán frá Glitni til kaupanna. Þá lánuðu Saga Capital og dótturfélag Fons hf. samtals 5,5 milljarða til félagsins. Þetta lánsfé hefur verið afskrifað og að engu orðið.

Eigið fé Stíms var tveir milljarðar króna og hefur Jakob Valgeir sagt að hann hafi ekki tekið lán fyrir sínum hluta, heldur hafi greitt fyrir hann með reiðufé.

Skuldir afskrifaðar

Í nóvember 2008 námu skuldir fyrirtækja Jakobs við Landsbankann um nítján milljörðum króna. Stærstan hluta þessara skulda bar félagið Jakob Valgeir ehf., eða um 13 milljarða króna. Við skiptingu Landsbankans urðu þessar skuldir eftir hjá gamla Landsbankanum.

Í desemberlok 2008 er skipt um nafn á Jakobi Valgeiri ehf. og nefnist félagið eftir það JV ehf. Annað félag í eigu Jakobs sjálfs, Guðbjartur ehf., skipti einnig um nafn og heitir eftir breytingu Jakob Valgeir ehf. Þetta nýnefnda félag tekur, með samþykki gamla Landsbankans, yfir eignir gamla félagsins og hluta skulda, en meirihluti skuldanna varð eftir í JV ehf. og er tapað fé.

Eins og sjá má er ekki ljóst hve stór hluti áðurnefndra 19 milljarða skulda hefur verið afskrifaður nú þegar eða verður afskrifaður síðar. Það sem liggur fyrir er að skuldir hins nýnefnda Jakobs Valgeirs ehf. námu tæpum sex milljörðum króna í árslok 2008 og af ársreikningi fyrirtækisins má lesa að skuldirnar hafi aukist um 2,5 milljarða frá árinu áður, einkum vegna falls krónunnar.

Víkur þá sögunni að útgerðarfyrirtækinu Festi í Hafnarfirði. Það félag átti eftir hrun í alvarlegum skuldavanda og var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun nóvember 2009 og sett í sölu af nýja Landsbankanum skömmu síðar. Um síðustu áramót var greint frá því að útgerðarfélagið Völusteinn hefði keypt báta og aflaheimildir Festar fyrir um 3,2 milljarða króna. Fékk Völusteinn um 80% kaupverðsins að láni frá Landsbankanum, eða um 2,5 milljarða króna. Völusteinn ehf. var í að stærstum hluta í eigu Gunnars Torfasonar og Ólafs Jens Daðasonar, en Gunnar var einn af hluthöfum Stíms með Jakobi Valgeiri.

Um mitt þetta ár er skipt um nafn á Völusteini og tekur félagið upp nafnið Salting ehf. Annað félag, sem áður hét Salting ehf., skiptir einnig um nafn og heitir nú Völusteinn ehf.

Hið nýnefnda félag Salting er svo selt öðru félagi, B15 ehf., og er salan gengin í gegn 1. september. Þann dag tekur ný stjórn Salting til starfa, en hana skipa þau Jakob Valgeir Flosason og Björg H. Daðadóttir, eiginkona Jakobs. Félagið B15 ehf. er að öllu leyti í eigu Bjargar. Verðið sem B15 greiddi fyrir Salting mun vera rúmur milljarður króna og var að stærstum hluta yfirtaka á skuldum félagsins við Landsbankann. Var það gert með samþykki bankans.

Vilborg GK komin til Jakobs Valgeirs ehf.

Við kaupin á Festi fékk Völusteinn sex báta og fiskvinnslu í Hafnarfirði auk aflaheimilda upp á um 1.650 þorskígildistonn. Mjög fljótlega seldi félagið tvo bátanna, Önnu GK og Ásdísi GK, og Hafdís GK var seld skömmu síðar.

Um síðustu áramót gerði félagið út þrjá báta sem fengust með kaupunum á Festi, Vilborgu GK, Baddý GK og Hildi GK, en Völusteinn átti fyrir Hrólf Einarsson ÍS, sem félagið hafði keypt í maí 2009.

Þegar athugað er hvað orðið hefur um þessa báta nú, tæpu ári eftir kaup Völusteins á eignum Festar, sést að Völusteinn gerir nú aðeins út einn bát, Hrólf Einarsson ÍS. Þá vekur athygli að Vilborg GK er nú í flota Jakobs Valgeirs ehf., en Vilborgu fylgja m.a. heimildir til veiða á 166 tonnum af þorski, 65 tonnum af ýsu og 56 tonnum af steinbíti.

Vilborgin stoppaði því stutt við hjá Völusteini.

Eigið fé félagsins neikvætt um milljarða króna

Félagið í hringiðu þessa máls, Jakob Valgeir ehf., áður Guðbjartur ehf., var rekið með tæplega 3,1 milljarðs króna tapi árið 2008, samkvæmt ársreikningi félagsins. Voru það fjármunagjöld sem léku stærstan hlut í afkomunni, en þau námu tæpum 3,4 milljörðum króna. Segir í ársreikningi að því valdi hrun á gengi krónunnar.

Eignir félagsins námu í árslok 2008 3,6 milljörðum króna, en þar af voru fiskveiðiheimildir metnar á um þrjá milljarða. Langtímaskuldir félagsins nær tvöfölduðust á árinu, fóru úr 2,8 milljörðum í 5,5 milljarða króna. Er þar um að ræða skuldabréfalán.

Skammtímaskuldir tvöfölduðust einnig, fóru úr 240 milljónum í 530 milljónir, einkum vegna stóraukinna afborgana af langtímaskuldum.

Af þessu sést að eigið fé Jakobs Valgeirs ehf. var neikvætt um 2,4 milljarða króna.

Jakob Valgeir Flosason.
Jakob Valgeir Flosason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK