Íslendingar svartsýnir í árslok

Íslenskir neytendur eru langt frá því að vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum nú í árslok ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú rétt fyrir hádegi. Þannig lækkaði vísitalan um rúm 2 stig milli nóvember og desember og er gildi hennar nú 48,3 stig.

Á árinu hefur hún mælst að meðaltali 53 stig og er því ljóst að landinn er heldur svartsýnni nú en hann hefur að jafnaði verið á þessu ári. Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á núverandi ástandi undanskildu, lækkuðu á milli nóvember og desember. Þannig hækkaði vísitalan lítillega sem mælir mat á núverandi ástandi, eða úr 10,8 stigum í 12,4 stig, og er því ljóst að landinn er langt í frá að vera sáttur með ástandið nú í efnahags- og atvinnumálum.

Væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði lækkuðu um tæp 5 stig og mælist sú vísitala nú 72,3 stig, en þess má geta að hún hefur að meðaltali verið yfir 80 stig á árinu og er því ljóst að landinn er orðinn mun svartsýnni á framtíðina en  hann hefur að jafnaði verið á árinu. Þess má geta að ekki er langt um liðið síðan þessi vísitala mældist yfir 100 stig, sem gerðist þrjá mánuði í röð, þ.e. á tímabilinu júlí til og með september. Mat á efnahagslífinu lækkaði svo um 2 stig og mat á atvinnuástandinu um 3 stig.

Áhugi á húsnæðiskaupum að aukast

Með Væntingavísitölu Gallup fylgdi að þessu sinni mæling á ársfjórðungslegri vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa. Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup stendur nánast í stað frá síðustu mælingu sem átti sér stað í september síðastliðnum og mælist hún nú 52,5 stig.

„Vísitalan fyrir fyrirhuguð bifreiðakaup lækkar lítillega og mælist nú 17 stig. Sama gildir um vísitöluna sem mælir fyrirhugaðar utanlandsferðir, en þó mælist gildi hennar mun hærra en þeirrar sem undan er getið, þ.e. 133,4 stig. Er því ljóst að enn ríkir nokkur ferðagleði hjá landanum, sem er í takt við tölur sem Ferðamálastofa tekur saman og birtir en þær sýna að stöðugt fleiri Íslendingar eru á faraldsfæti.

Á hinn bóginn hækkar vísitalan sem mælir fyrirhuguð húsnæðiskaup, eða úr 4,3 stig í 7,0 stig, og þess má geta að þrátt fyrir að vísitalan sé nú ekki há þá hefur hún ekki verið hærri síðan í september fyrir hrun. Bendir þetta því til þess að meira líf sé að fara að færa yfir húsnæðismarkaðinn næsta kastið en verið hefur undanfarin misseri," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK