Skiptiútboð á aflandskrónum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að ekkert verði gert varðandi afnám gjaldeyrishafta fyrr en ný áætlun um afnám þeirra verður birt í febrúar. Þó sé hugsanlegt að skipulagt verði skiptiútboð milli aflandskróna í eigu erlendra aðila og erlends gjaldeyris í eigu innlendra aðila og að aflandskrónum geti verið hleypt í fjárfestingu í atvinnulífinu með tilteknum skilyrðum.

Már sagði í erindi, sem hann flutti í Háskólanum á Akureyri í dag, að það verði æ ljósara að þegar ryk fjármálakreppunnar hefur fallið muni Íslendingar hvorki
standa frammi fyrir skuldakreppu hins opinbera né munu hreinar erlendar skuldir þeirra verða óvenjulegar í alþjóðlegu samhengi.

„Þær krossgötur sem við stöndum á nú felast í því að nú þarf að breyta  stöðugleika í fjárfestingu, hagvöxt og atvinnu. Að vísu er flest sem bendir til þess að hagvöxtur hafi hafist á seinni hluta síðasta árs. Hann var hins vegar ekkert sérlega kröftugur og fjárfesting er áfram í sögulegu lágmarki. Þá er atvinnuleysi enn miklu hærra en Íslendingar hafa átt að venjast og felur í sér verulega ónýtta framleiðslugetu í hagkerfinu.

Í því samhengi er margt sem bendir til þess að þau fjármagnshöft sem reyndust vel til að stuðla að stöðugleikanum séu í vaxandi mæli hamlandi á fjárfestingu og viðskiptatækifæri og gætu því í vaxandi mæli farið að virka sem dragbítur á hagvöxt. Í öllu falli eru Íslendingar  samningsbundnir gagnvart aðildarlöndum EES að afnema höftin þegar neyðin sem kallaði á þau er yfirstaðin," sagði Már.

Hann sagði því heppilegt, að aðstæður til að lyfta höftunum hafi batnað á undanförnum mánuðum.

„Í fyrsta lagi kemur þar til að þjóðhagslegur stöðugleiki hefur aukist eins og ég hef rakið hér að framan. Síðan hefur afkoma ríkissjóðs batnað og lánsfjáreftirspurn hans fer minnkandi og verði haldið áfram á þeirri braut þarf ekki að óttast ósjálfbæra  skuldasöfnun hans. Þá hefur gjaldeyrisforði stóraukist og áhyggjur vegna erlendrar lausafjárstöðu þjóðarbúsins hafa minnkað verulega.

Það sem helst vantar upp á er að staða bankakerfisins teljist nægilega traust til að það geti fjármagnað sig utan gjaldeyrishafta. Vonir eru bundnar við að hægt verði að gefa út slíkt heilbrigðisvottorð á næstu mánuðum. Það skal ítrekað í þessu sambandi að samkvæmt yfirlýsingum sem komu fram í nóvember, svo og því efni sem gert er opinbert í framhaldi af fjórðu endurskoðun áætlunarinnar með AGS að nú er unnið að nýrri áætlun um afnám gjaldeyrishafta og er áformað að opinbera hana fyrir lok febrúar. Jafnframt hefur því verið lýst yfir að
ekkert verður gert varðandi afnám hafta fyrr en þessi áætlun hefur verið birt, nema þá hugsanlega að skipulagt verði skiptiútboð milli aflandskróna í eigu erlendra aðila og erlends gjaldeyris í eigu innlendra aðila og að aflandskrónum geti verið hleypt í fjárfestingu í atvinnulífinu með tilteknum skilyrðum," sagði Már Guðmundsson. 

Erindi Más Guðmundssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK