Langtímahugsun í stað fortíðarhyggju

Helgi Magnússon.
Helgi Magnússon.

Íslendingar þurfa að tileinka sér langtímahugsun í stað þeirrar augnablikshugsunar sem einkennir þjóðina, að ekki sé talað um vaxandi fortíðarhugsun, jafnvel fortíðarhyggju eða fortíðarþrá. Var þetta meðal þess sem Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins sagði á Iðnþingi SI í dag.

„Það örlar á einangrunarstefnu í samfélaginu, vilja til að einangra okkur frá Evrópu eða Bandaríkjunum eða öllum heiminum. Tæplega yrði einangrun okkur til framdráttar. Þversagnir einkenna veruleika okkar Íslendinga um þessar mundir. Það vantar samstöðu um hagvaxtarstefnu og vilja til að auka verðmætasköpun í samfélaginu en slík stefnumörkun er lykillinn að efnahagslegri endurreisn samfélagsins. Það vantar fjárfestingar til að hleypa krafti í atvinnulífið og til að vinna bug á atvinnuleysinu. Það vantar djarfa efnahagsstefnu sem gengur út á að nýta tækifæri okkar í stað þess að hækka skattprósentur á minnkandi skattstofna sem gerir ekki annað en að dýpka kreppuna að óþörfu. Við getum ekki unað við að þjóðin sé hneppt í skattfangelsi og festist í fátæktargildrum. Við verðum að rífa okkur út úr þessu ástandi með nýrri stefnumörkun.“

Helgi sagði að á sama tíma liggi fyrir staðreyndir um það hve öflug útflutningsstarfsemi landsins er og hve sterk staða Íslands sé varðandi náttúruauðlindir, sem þá þurfi að nýta rétt og skynsamlega. „ Útflutningur er ein helsta lífæð landsins. Sökum smæðarinnar erum við afar háð innflutningi á margvíslegum vörum og hráefnum. Sterk staða útflutningsgreina hefur mildað höggið af hruninu 2008,“ sagði hann.

Ekki hægt að byggja á veiku gengi til frambúðar

Helgi bar saman útflutningsgeira Íslands og Sádí-Arabíu, þótt hann tæki fram að slíkur samanburður geti verið varhugaverður vegna mismunandi aðstæðna. Þó verði því ekki neitað að staða Íslands sé góð þegar litið sé á að S-Arabar flytja út olíu sem nemur 6.500 bandaríkjadölum á mann á ári.

„Á sama tíma nam útflutningur sjávarafurða frá Íslandi 5.000 Bandaríkjadollurum á hvern Íslending og því til viðbótar var útflutningur orkufreks iðnaðar okkar um 6.000 Bandaríkjadollarar á mann. Þetta eru sláandi tölur og sýna að vissu marki styrk okkar og möguleika. Brýnt er þó að hafa í huga að kostnaður Íslendinga vegna aðfanga er mun meiri heldur en Arabanna. En enga að síður er þetta merkilegt. Við þurfum samt að gera betur. Aukinn útflutningur Íslendinga síðustu 2 árin stafar af lágu gengi krónunnar en magnaukning er lítil. Við getum ekki byggt á veiku gengi krónunnar til frambúðar. Við þurfum raunverulega aukningu í gegnum aukin umsvif vegna stóraukinnar fjárfestingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK